Innlent

Einn í þorskmoki við Rússland

Svavar Hávarðsson skrifar
Búnir í Barentshafi og klára túrinn á heimamiðum.
Búnir í Barentshafi og klára túrinn á heimamiðum. mynd/hbGrandi
Togari HB Granda, Þerney RE, er á stími á heimamið eftir ágæta veiðiferð innan rússnesku lögsögunnar í Barentshafi. Þar fengust alls um 655 tonn af fiski upp úr sjó á rúmlega tveimur vikum, eða nærri 50 tonn á sólarhring.

Að sögn Sigurgeirs Jóhannssonar, fyrsta stýrimanns, er sex daga sigling á miðin í Barentshafi, á svokallaðan Gæsabanka þar sem aflinn var að mestu tekinn. Sigurgeir segir veðurlag hafa verið skaplegt; mest kaldafýla en þó aldrei neitt sem hamlaði veiðum.

Að sögn Sigurgeirs í viðtali við heimasíðu HB Granda var uppistaðan í aflanum góður þorskur af millistærð og þaðan af stærri.

Um 30 tonn eru af öðrum tegundum, mest grálúðu og nokkur tonn af ýsu. Annars hlýri og skrápflúra, segir Sigurgeir en að hans sögn var Þerney eina íslenska skipið sem var að veiðum í rússnesku lögsögunni. Á veiðislóðinni voru hins vegar nokkur rússnesk skip, þrír færeyskir togarar og tveir grænlenskir á leiðinni þegar heim var haldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×