Erlent

Mótmæli í Hong Kong: Tjaldbúðir rýmdar og yfir 200 handteknir

ingvar haraldsson skrifar
Lögreglumenn drógu þingmanninn og lýðræðissinnann Leung Kwok-Hung burt í járnum í gær.
Lögreglumenn drógu þingmanninn og lýðræðissinnann Leung Kwok-Hung burt í járnum í gær. nordicphotos/AFP
Lögreglan í Hong Kong lokaði í gær stærstu búðum mótmælenda í Admiralty-hverfinu. Lögreglan, vopnuð keðjusögum, vírklippum og vinnuvélum, fjarlægði vegartálma og reif niður tjaldbúðir og borða sem mótmælendur höfðu komið upp. Yfir tvö hundruð mótmælendur voru handteknir í aðgerðunum.

Fjöldi þekktra einstaklinga var handtekinn í mótmælunum. Þeirra á meðal var fjölmiðlamógúllinn Jimmy Lai, Martin Lee, stofnandi Lýðræðisflokksins sem er í stjórnarandstöðu í Hong Kong, og Nathan Law, leiðtogi stúdenta.

Mótmælin hófust í lok september eftir að gefið var út að frambjóðendur í kosningum um æðsta embætti Hong Kong árið 2017 þyrftu samþykki stjórnvalda í Kína til að bjóða sig fram. Í upphafi mótmælanna komu tugir þúsunda saman á götum Hong Kong til að krefjast frjálsra kosninga og aukins lýðræðis. Talsvert hafði fækkað í hópi mótmælenda á undanförnum vikum. Að stórum hluta var það vegna þess hve litlum árangri mótmælin höfðu skilað, samkvæmt frétt BBC.

Aðgerðir lögreglunnar hófust í gærmorgun þegar mótmælendum var gefinn þrjátíu mínútna frestur til þess að yfirgefa tjaldbúðirnar.

Nokkur hundruð manns hlýddu fyrirmælunum en hópur mótmælenda sat sem fastast. Í kjölfarið lét lögregla til skarar skríða og dró mótmælendurna í burtu einn af öðrum.

Mótmælendur hyggjast ekki láta sitt eftir liggja þrátt fyrir að búið sé að loka búðunum og hétu því að halda áfram borgaralegri óhlýðni eftir öðrum leiðum til að knýja á um lýðræðisumbætur. Alex Chow, einn leiðtogi stúdenta, sem var handtekinn í gær sagði að mótmælendur myndu snúa aftur af meiri krafti en nokkru sinni áður.

Aðgerðir lögreglu í gær komu í kjölfar dómsúrskurðar. Rútufyrirtæki í borginni fór fram á úrskurðinn vegna þess hve neikvæð áhrif búðirnar höfðu á rekstur fyrirtækisins.

Lögreglan lokaði öðrum tjaldbúðum mótmælenda í verkamannahverfinu Mong Kok í lok nóvember. Þá urðu hörð átök milli mótmælenda og lögreglu þar sem um 160 manns voru handteknir.

Einu búðirnar sem eftir standa eru í Causeway Bay en talið er að um 20 mótmælendur hafist þar við. Löreglan hefur gefið út að búðunum verði lokað bráðlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×