Fótbolti

Holland tapaði fyrsta leiknum undir stjórn Hiddink | Úrslit kvöldsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Conte fer vel af stað með ítalska landsliðið.
Conte fer vel af stað með ítalska landsliðið. Vísir/Getty
Hollenska landsliðið í knattspyrnu fer ekki vel af stað undir stjórn Guus Hiddink en liðið tapaði 0-2 fyrir Ítalíu í kvöld.

Hiddink sem tók við liðinu af Louis Van Gaal í haust fékk sannkallaða martraðabyrjun en eftir aðeins 10. mínútur voru Ítalir komnir í 2-0 og hafsent hollenska liðsins, Bruno Martins Indi hafði fengið reisupassann stuttu áður.

Ítalir stjórnuðu leiknum síðustu 80. mínútur leiksins og unnu að lokum nokkuð náðugan sigur í fyrsta leik sínum undir stjórn Antonio Conte.

Holland leikur fyrsta leik sinn í undankeppni Evrópumótsins á þriðjudaginn gegn Tékklandi en Holland er með Íslandi í riðli.

Frakkland vann nauman 1-0 sigur á Spáni í Frakklandi í kvöld en sigurmark leiksins skoraði nýjasti liðsmaður Chelsea, Loic Remy.

Bæði lið stilltu upp sterkum liðum en Remy skoraði sigurmark leiksins korteri eftir að hann kom inná af varamannabekknum.

Þá varð Zlatan Ibrahimovic markahæsti leikmaðurinn í sögu sænska landsliðsins þegar hann skoraði tvö mörk í 2-0 sigri á Eistlandi.

Zlatan jafnaði met Sven Rydell með fyrra marki sínu og skaust fram úr honum þegar hann bætti við öðru marki leiksins.

Úrslit dagsins:

Ítalía 2-0 Holland

Frakkland 1-0 Spánn

Króatía 2-0 Kýpur

Svíþjóð 2-0 Eistland

Belgía 2-0 Ástralía

Slóvakía 1-0 Malta




Fleiri fréttir

Sjá meira


×