Erlent

„Selfie-hobbitar“ fjarlægðir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
MYND/YK.KZ
Minnisvarði í borginni Ust-Kamenogorski í Kasakstan var fjarlægður í gær eftir að hafa orðið íbúum borgarinnar mikið aðhlátursefni. Hann hafði þá einungis staðið uppi í rúman sólarhring.

Samfélagsmiðlar í landinu loguðu eftir að hann var opinberaður nú á mánudag en mörgum þótti eins og mennirnir á minnisvarðanum væru að taka sjálfsmynd, eða „selfie“. Aðrir voru ekki lengi að benda á líkindi þeirra með hobbitunum úr hugarheimi J.R.R. Tolkien.

Styttan var byggð til að heiðra tvo mektarmenn frá 19. öld; Abay Kunanbayev, kasakskan rithöfund og hinn rússneska Yevgeny Mikhaelis sem var vísindamaður og ötull talsmaður lýðræðis fyrir íbúa svæðisins.

Annar höfunda verksins, myndhöggvarinn Vladimir Samoylov, viðurkenndi sjálfur að það væri eitthvað heldur einkennilegt við minnisvarðann. Hann sagði að þeir sem unnu að styttunni hefðu ekki fengið nægan tíma til að leggja lokahönd á verkið. „Það var þrýst of mikið á okkur og þetta var niðurstaðan,“ sagði hann í samtali við kasöksku fréttasíðuna Yk.kz.

Sem fyrr segir hefur styttan verið fjarlægð og yfirvöld á svæðinu hafa sagt myndhöggvurunum að laga hana hið snarasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×