Innlent

Rændu veiðistöngum fyrir milljónir króna

Bjarki Ármannsson skrifar
Innan úr húsinu þaðan sem stöngunum var stolið.
Innan úr húsinu þaðan sem stöngunum var stolið. Mynd/Af Facebook-síðu West Ranga
Brotist var inn í veiðihús við Ytri Rangá í nótt og veiðibúnaði að virði samtals nokkurra milljóna króna stolið.

„Það töpuðu allir nokkrum stöngum, við leiðsögumennirnir og kúnnar líka,“ segir Guðmundur Atli Ásgeirsson leiðsögumaður, einn þeirra sem kom að húsinu í morgun. „Þeir fóru meira að segja í frystikisturnar og rændu laxi. Þeir fóru í kisturnar og tæmdu þær allar, þetta eru örugglega tíu kíló af laxi.“

Mest munar þó um veiðistangirnar. Um tuttugu stangir voru teknar og nemur tjónið sennilega um fimm milljónum króna. Að sögn Guðmundar var brotist inn í húsið, sem var læst, í gegnum glugga.

„Þeir vissu alveg hvað þeir voru að gera,“ segir hann. „Sem betur fer var ekki farið í bílinn minn. Útlendingarnir voru líka ekki allir búnir að setja saman stangir, þeir duttu í það í gær og fóru ekki að veiða um eftirmiðdaginn. Þannig að þeir áttu eftir að setja saman allar stangirnar, annars hefði tjónið orðið ábyggilega tvöfalt meira.“

Að sögn Guðmundar er um sjaldgæfar stangir að ræða sem eigendurnir myndu þekkja strax aftur. Hver sem hefur upplýsingar um þjófnaðinn er beðinn um að hafa samband við lögregluna á Hvolsvelli eða senda skilaboð á johannes@westranga.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×