Innlent

Makríltorfu skolar á land við Jökulsárlón

Bjarki Ármannsson skrifar
Heldur óvenjuleg sjón við Jökulsárlón í dag.
Heldur óvenjuleg sjón við Jökulsárlón í dag. Mynd/Ívar Finnbogason
Þessari óvenjulegu mynd náði Ívar Finnbogason leiðsögumaður við Jökulsárlón í dag. Á myndinni sést að heilli makríltorfu virðist hafa skolað upp á land við lónið, en þangað leitar makríll nánast aldrei.

Sveinn Sveinbjörnsson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, er mjög fróður um málefni makríls. Hann segist ekki þekkja til þess að fiskurinn hafi áður gengið í lónið.

„Við höfum haft fregnir af því að hann hafi gengið svona inn í árósa og aðeins inn í ár,“ segir Sveinn. „En þangað hefur hann náttúrulega ekkert að sækja og mér þykir langlíklegast að selur eða háhyrningar eða slík dýr hafi hrakið torfu þangað inn.“

Þótt málið sé óvenjulegt stendur ekkert til að rannsaka málið frekar, enda muni þetta ekki koma til með að hafa nein áhrif á umhverfið eða stofninn. En hvað er það sem verður makrílnum að bana í lóninu?

„Þetta er örugglega að mestu leyti seltubreytingarnar, þó að vissulega sé þetta svo kalt vatn að makríllinn sækir ekki í það,“ segir Sveinn. „Við sjáum hann ekki í neinu magni hér við Ísland í kaldara vatni en svona í kringum 6,5 gráður. Og ég er alveg viss um að vatnið inn við Jökulsárlón sé nálægt núllinu. En ferskleiki vatnsins myndi drepa hann líka, þetta er kannski bara hvortveggja sem veldur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×