Innlent

Nautgripir sluppu úr Húsdýragarðinum og kíktu á æfingu hjá Þrótti

Bjarki Ármannsson skrifar
Ekki er vitað hvort nautgripirnir hafi náð að stilla upp í lið áður en þeim var smalað saman.
Ekki er vitað hvort nautgripirnir hafi náð að stilla upp í lið áður en þeim var smalað saman. Vísir/Vilhelm
„Það var engin hætta, þær hafa bara aðeins fengið sér göngutúr,“ segir Tómas Óskar Guðjónsson, forstöðumaður Fjölskyldu – og húsdýragarðsins, um nautgripina sex sem sluppu úr garðinum fyrr í dag og ráfuðu inn á knattspyrnuvöll Þróttar.

Tómas segir að skepnurnar hafi sloppið þegar verið var að færa þær inn í fjós við lokun garðsins.

„Einn kálfurinn fældist þarna við einhvern gestinn,“ útskýrir Tómas. „Hann tók einhvern sveig og hinar eltu. Þau náðu einhvern veginn að komast þarna rétt aðeins út.“

Eins og fyrr segir ráfuðu nautgripirnir inn á knattspyrnuvöllinn við hlið garðsins. Þar voru ungar stúlkur á æfingu með Þrótti og urðu þær ekkert lítið hissa við heimsóknina. Tómas útilokar það ekki að nautgripirnir hafi jafnvel bara viljað bregða aðeins á leik á vellinum með börnunum.

„Allavega langaði þær ekki á gervigrasið, ég er viss um það,“ segir Tómas. „Ég hugsa að það sé nokkuð erfitt að melta það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×