Innlent

Hafa áhyggjur af auðri blokk

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Blokkin á Raufarhöfn. Hún má muna sinn fífil fegri enda orðin lýti á ljómandi fallegu þorpi.
Blokkin á Raufarhöfn. Hún má muna sinn fífil fegri enda orðin lýti á ljómandi fallegu þorpi. mynd/jónas friðrik
Íbúasamtökum Raufarhafnar ofbýður ástandið á einu blokk bæjarins sem hefur staðið auð í nokkur ár. Hafa þau því sent bæjarráði Norðurþings og Leigubæ, sem er eigandi hennar, erindi þar sem þess er krafist að öllum tiltækum ráðum verði beitt til að koma blokkinni í viðunandi horf.

Í erindi til Norðurþings segir: „Engin kynding er á hluta hússins þar sem rafmagnsreikningar hafa ekki verið greiddir. Ekkert viðhald eða endurbætur hafa farið fram á húsinu í mörg ár og eru margar íbúðir varla hæfar til búsetu. Blokkin stendur á áberandi stað á Raufarhöfn og er ásýnd hennar mikið lýti á annars fallegu þorpi.“

Telja þau einnig að hætta sé á því að húsið eyðileggist og að enginn muni treysta sér til þess að koma því í viðunandi horf ef ekki verði tekið til hendinni sem fyrst.

Bergur Elías Ágústsson sveitarstjóri segir að unnið sé að lausn málsins en ekki sé hægt að greina frá þeim gangi frekar nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×