Innlent

Loðnuvertíðin hafði áhrif á byggðalínuna

Sveinn Arnarsson skrifar
Raforka hefur verið skert í fjórgang frá áramótum. Afkastageta byggðalínunnar er ekki nægjanleg. Fréttablaðið/Vilhelm
Raforka hefur verið skert í fjórgang frá áramótum. Afkastageta byggðalínunnar er ekki nægjanleg. Fréttablaðið/Vilhelm
Frá áramótum hefur fjórum sinnum þurft að grípa til skerðingar á raforku til fyrirtækja á svæðinu frá Eyjafirði í norðri og til Djúpavogs í austri. Ástæða skerðingarinnar er sú að byggðalínan annar ekki því álagi sem er á henni og hún getur ekki annað eftirspurn. Þetta kemur sér afar illa fyrir fyrirtæki á Norður- og Austurlandi. Í sumum tilvikum hefur tilkynning borist til fyrirtækja aðeins fjórum tímum áður en raforka er skert til þeirra.

Þrátt fyrir að byggðalínan hafi ekki annað álaginu á norðausturhorni landsins var álagið minna en venjulega á þessum tíma. Til að mynda veiddist lítið af loðnu í febrúar og mars. Það hafði þau áhrif að loðnubræðslur á Austurlandi þurftu ekki eins mikið rafmagn og við það var álagið á byggðalínuna minna en ella. „Horfa verður á orkuflutninga milli landshluta sem einn hluta af samgöngukerfinu,“ segir Íris Baldursdóttir, deildarstjóri kerfisstjórnar og markaðar Landsnets.

Flutningsgeta byggðalínunnar er ekki nægjanlega mikil milli landshluta. Byggðalínan á að sinna öllum notendum kerfisins og framkvæmdir til styrkingar byggðalínu eru notendum alls staðar á landinu til hagsbóta.

Kristín Halldórsdóttir.
„Flutningsgeta byggðalínunnar er ekki nema um fimm prósent af öllu því rafmagni sem notað er hverju sinni sem þýðir að línan býður ekki upp á mikinn sveigjanleika, jafnt fyrir framleiðendur rafmagns sem vilja geta selt raforku um allt land, sem og fyrir fyrirtæki og einstaklinga víðs vegar um landið sem vilja búa við trygga orku,“ segir Íris.

Mjólkursamlagið á Akureyri býr við ótryggan orkuflutning og kom fram í máli Kristínar Halldórsdóttur að fyrirtækið hefði aðeins fengið fjögurra tíma fyrirvara þegar ein skerðingin átti sér stað í vor. Að hennar mati hefði þetta verið afar lítill fyrirvari og ekki nægjanlegur nema til að stöðva framleiðslu um tíma í samlaginu.

Íris segir þetta eiga sér þá skýringu að vilji Landsnets sé sá að skerða sem allra minnst raforku til notenda. Ef Landsnet þyrfti að spá fram í tímann þá væru eflaust skerðingarnar fleiri en ella. Af þeim sökum þurfi því stundum að grípa til skerðingar með stuttum fyrirvara. Landsnet skilji samt sem áður áhyggjur fyrirtækja á svæðunum og reyni að gera allt til að orkan verði skert sem sjaldnast og það vari í eins stuttan tíma og þurfa þykir í hvert sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×