Innlent

Búið að slökkva eldinn: „Við vildum umgangast eldinn af mikilli varúð“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Eldur kviknaði í ruslahaug á þriðja tímanum í dag. Bílar frá tveimur slökkvistöðum voru kallaðir út vegna eldsins. Á rúmum hálftíma var búið að slökkva eldinn. Vísir greindi frá málinu rétt eftir að kviknaði í ruslahaugnum.

Svo virðist sem kviknað hafi í ruslahaug fyrir utan fyrirtækið Furu sem er til húsa í Helluhrauni 3. Eldurinn barst yfir í vinnuvél sem stóð í ljósum logum. Slökkviliðsmenn frá Hafnarfirði og Skógarhlíð komu á vettvang, ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum.

Vegna þess að ekki var vitað hvaða efni leyndust í ruslahaugnum var svæðið girt af og ráðstafanir gerðar líkt og um sprengihættu væri að ræða. Þetta staðfestir Ólafur Ingi Grettisson, innivarðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. „Eldsupptök eru ekki kunn að svo stöddu, en lögreglan mun væntanlega kíkja á það mál. Við vildum umgangast eldinn af mikilli varúð, því þegar það er eldur í svona haug veit maður aldrei hvað leynist í honum.“

Ólafur segir að margir hafi haft samband við slökkviliðið vegna málsins. „Já, það var mikill reykur frá eldinum og margir urðu hans varir og létu okkur vita.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×