Innlent

Úrslitin liggja nánast fyrir

Heimir Már Pétursson skrifar
Grétar Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði segir eitthvað mikið þurfa að gerast til að breyta meginstraumum kannana um fylgi flokkanna í sveitarstjórnum landsins.
Grétar Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði segir eitthvað mikið þurfa að gerast til að breyta meginstraumum kannana um fylgi flokkanna í sveitarstjórnum landsins.
Úrslit sveitarstjórnarkosninga verða að öllum líkindum mjög nálægt því sem nýjustu skoðanakannanir hafa verið að sýna að mati prófessors í stjórnmálafræði. Eitthvað sérstakt þurfi að koma upp til að breyta stöðunni svo skömmu fyrir kosningar.

Nýju framboðunum, Bjartri framtíð og Pírötum, virðist víða ganga vel samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið að undanförnu og gömlu flokkunum gengur að sama skapi illa að höfða til kjósenda á mörgum stöðum.

Þannig er Björt framtíð á töluverðri siglingu á Akranesi, Akureyri og í Hafnarfirði svo dæmi séu tekin og Píratar virðast ætla að ná inn bæjarfulltrúum víða um land.

Grétar Eyþórsson prófessor í stjórnmálafræði og aðferðafræði við Háskólann á Akureyri segir ekki einhlýtt að skýra þetta fylgi nýju flokkanna, en þetta séu þó sömu nýju flokkarnir og komu mönnum á þing í fyrra.

„Það virðist vera að það fylgi sem féll utan fjórflokksins í fyrra sé álíka mikið ef ekki meira en það fylgi var í sveitarstjórnarkosningunum árið 2010 og virðist hafa fundið sér farveg í þessum sömu tveimur flokkum og nú eru komnir á þing,“ segir Grétar.

Kosningarannsóknir hafa leitt í ljós að flokkshollusta hefur minnkað á undanförnum áratugum og sömuleiðis hefur sá hópur sem kýs alla jafna aðra flokka en fjórflokkinn svo kallaða stækkað með árunum og er nú um fjórðungur kjósenda. Það er því töluvert stór hópur kjósenda sem ný framboð geta höfðað til.

„Það er síst að minka ef við horfum á síðustu tvær sveitarstjórnarkosningar og svo þingkosningarnar í fyrra. Fjórflokkurinn svo kallaði er ekki að sækja til baka sína hlutdeild í kjósendahópnum,“ segir Grétar.

Nú eru aðeins níu dagar til kosninga og spurning hvort þeir flokkar sem eiga á brattan að sækja, eins og Samfylkingin víða um land annars staðar en í Reyjavík og Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík geti náð að rétta sinn hlut á svo skömmum tíma fyrir kosningar.

„Það er náttúrlega alltaf hægt að reyna fram á síðustu stundu en reynslan sýnir okkur auðvitað að þegar við erum komin þetta nálægt kosningum  þarf eitthvað afgerandi að gerast til að hlutirnir fari að snúast eitthvað verulega, til að meginstraumarnir fari að breytast,“ segir Grétar Eyþórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×