Innlent

Tók embætti Ríkislögreglustjóra á fjórða ár að skila umbeðnum gögnum

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Persónuvernd gerði árið 2010 athugasemdir við fyrirkomulag innra eftirlits með aðgangi að málaskrá lögreglu, en það tók embætti Ríkislögreglustjóra á fjórða ár að skila umbeðnum gögnum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar brot lögreglumanns vegna uppflettingar og meðferðar á upplýsingum úr upplýsingakerfi lögreglunnar. Maðurinn var handtekinn skömmu fyrir páska ásamt tveimur öðrum en brot mannanna eru talin hafa átt sér stað fyrir nokkrum árum. Ríkislögreglustjóri annast kerfisbundna skráningu upplýsinga í málaskrá lögreglu en rúmlega 325.000 einstaklingar eru skráðir í gagnagrunninn.

Í úttekt Persónuverndar frá árinu 2010 eru gerðar athugasemdir við tilhögun á öryggismálum kerfisins. Meðal annars segir að ekki liggi fyrir að öryggi aðgangsstýringa hafi verið skjalfest með þeim hætti að til staðar séu öryggisstefna, áhættumat og skráning öryggisráðstafana í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Þá segir

„Skýra verður hvernig innra eftirliti með aðgangi að LÖKE er háttað þannig að ljóst verði að öll þau lögregluembætti, sem hafa aðgang að kerfinu, viðhafi slíkt eftirlit á þann veg að kröfum 12. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sé fullnægt.“

Ríkislögreglustjóra var gefinn frestur til 1. nóvember 2010 til að svara þessum athugasemdum. Það var þó ekki fyrr en í desember 2011, eftir fjölda ítrekana og afskipti innanríkisráðherra af málinu, sem svar barst.

Persónuvernd taldi svör Ríkislögreglustjóra ekki fullnægjandi þar sem ekki kæmi fram hvernig brugðist yrði við athugasemdum stofnunarinnar. Það var síðan ekki fyrr en þann 27. janúar á þessu ári, tæplega fjórum árum eftir að athugasemdirnar voru gerðar, sem Ríkislögreglustjóri skilaði umbeðnum gögnum, meðal annars um áhættumat og öryggisstefnu.

Persónuvernd hefur þó ekki tekið ákvörðun um hvort svör embættisins séu fullnægjandi og er málinu því ekki lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×