Enski boltinn

Eðlilegt að Di María hafi tekið smá dýfu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ángel di María byrjaði frábærlega hjá Manchester United.
Ángel di María byrjaði frábærlega hjá Manchester United. vísir/getty
Gerardo „Tata“ Martino, landsliðsþjálfara Argentínu, finnst Ángel Di María, leikmaður Manchester United, fá of harða gagnrýni fyrir frammistöðu sína með enska liðinu í síðustu leikjum.

Di María byrjaði frábærlega á Old Trafford, en hann skoraði þrjú mörk og lagði upp fjögur í fyrstu sex leikjum sínum með liðinu eftir komuna frá Real Madrid. Hann hefur síðan þá tekið smá dýfu.

Martino fannst byrjun hans í raun frekar óeðlileg og líkjast frekar leikmanni sem hefur verið lengi hjá liðinu en ekki leikmanni sem var að koma í nýja deild.

„Byrjun hans var mögnuð og sérstaklega í ljósi þess að hann er að venjast nýrri deild, nýju liði, nýjum samherjum og nýrri spilamennsku. Mér finnst frammistaða hans í síðustu leikjum í raun eðlilegri fyrir leikmann sem er að koma til nýs liðs,“ sagði Martino fyrir leik Portúgal og Argentínu sem fram fer á Old Trafford í kvöld.

Martino fór fögrum orðum um Di María sem hann segir geta spilað margar stöður. Hann kynntist því þegar hann stýrði Barcelona á síðustu leiktíð í El Clásico-leikjunum gegn Real Madrid.

„Maður þarf bara að horfa nokkrar leiktíðir aftur í tímann þegar hann var að spila á hægri kantinum hjá Real Madrid. Svo á síðustu leiktíð var hann að spila vinstra megin inn á miðjunni í frjálsara hlutverki,“ segir Gerardo Martino.

„Á HM stóð hann sig svo frábærlega á vinstri kantinum þannig það skiptir í raun ekki máli hvar hann spilar. Hann getur aðlagast hvaða stöðu sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×