Innlent

Rútubruninn: Telur rafmagn hafa kveikt í olíu

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Stóð í ljósum logum Eldurinn logaði glatt og talsvert mikið þurfti til að slökkva hann.
Stóð í ljósum logum Eldurinn logaði glatt og talsvert mikið þurfti til að slökkva hann. Mynd/Ragnhildur
„Þetta er bara sambland af olíu og rafmagni sem verður til þess að eldur kviknar,“ segir Rúnar Óskarson, eigandi Fjallasýnar, en eldur kom upp í rútu fyrirtækisins við Ljósavatnsskarð um hádegisbilið í gær.

„Slökkvilið kom eftir nokkrar mínútur en það var ekki nema í svona kílómetra fjarlægð,“ útskýrir Rúnar. „Mér varð strax rórra þegar ég vissi að það var slökkvilið nálægt.“

Eldurinn breiddist hratt út og töluvert þurfti til að slökkva hann.

„Verðmætin voru öll farin á nokkrum mínútum.“ Þetta er mikið tjón fyrir fyrirtækið og setur áætlanir þess og verkefni úr skorðum.

Engan sakaði í eldinum en aðeins bílstjóri rútunnar var inni í henni þegar eldurinn kviknaði. Hann fann undarlega lykt og fór út áður en eldurinn fór að loga inni í rýminu.

„Hann var óskaplega rólegur. Hann er ekki fæddur í gær og búinn að keyra í áratugi.“

Bíllinn var vel staðsettur á afleggjara í malargryfju þannig að vegfarendur voru ekki í nokkurri hættu. Lítinn reyk lagði yfir veginn.

Bíllinn var á leið til Akureyrar að sækja farm þegar atvikið varð og gripu kollegar Rúnars inn í til þess að aðstoða við verkefnið enda rútan ekki á leið eitt eða neitt. „Menn hjálpast að þegar á reynir.“ 


Tengdar fréttir

Eldur í rútu í Ljósavatnsskarði

Eldur kviknaði í rútu í Ljósavatnsskarði nú um hádegisbilið. Slökkvilið í Aðaldal, ásamt slökkviliðinu á Húsavík var kallað á vettvang og er búið að slökkva eldinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×