Innlent

Sýslumaður í 200 km fjarlægð: „Þetta er bara rekið ofan í kokið á okkur“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Indriði Indriðason er ósáttur við að hafa ekki fengið að hafa puttana í ákvarðanatöku á staðsetningu sýslumannsembættis á Vestfjörðum.
Indriði Indriðason er ósáttur við að hafa ekki fengið að hafa puttana í ákvarðanatöku á staðsetningu sýslumannsembættis á Vestfjörðum.
„Svona aðferðafræði gerir ekkert annað en að sá fræi tortryggni og óvildar á milli sveitarfélaganna,“ segir Indriði Indriðason, oddviti Tálknafjarðarhrepps, um þá stefnu Innanríkisráðuneytisins að ákveða staðsetningu sýslumannsembætta og lögreglustjóra án samráðs við sveitastjórnarstigið.

Eins og kunnugt er var samþykkt á vorþingi að fækka fjölda embætta á landinu öllu. Bókað var í fundargerð síðasta sveitastjórnarfundar að fullur skilningur væri á hagræðingarkröfu í ríkisrekstri. „En sú lítilsvirðing sem

sveitarstjórnarstiginu er sýnd með því að ríkisvaldið ákveður hvar

viðkomandi stofnanir eiga að vera er er algjörlega óþolandi,“ er jafnframt bókað af sveitastjórninni í heild.

Lögin taka gildi 1. janúar 2015 og eftir þann tíma verður sýslumaður fyrir alla Vestfirði staðsettur á Bolungarvík.

„Þetta er óskiljanlegt,“ sagði Indriði í samtali við Fréttablaðið. „Þetta er bara rekið ofan í kokið á okkur án þess að við eigum að fá nokkuð um það að segja.“

Að hans mati hefði verið eðlilegt að gefa sveitarstjórnarstiginu á Vestfjörðum færi á að ákveða staðsetningu embættisins, það hefði lagt meiri grundvöll að sameiningu og samvinnu milli sveitarfélaga.

Vegalengdin milli Bolungarvíkur og Tálknafjarðar er 205 kílómetrar sem er lengra en vegalengdin frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal. Þar að auki er leiðin með öllu ófær þegar snjóþungt er á vetrum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×