Viking er mikið Íslendingalið enda spiluðu fimm íslenskir knattspyrnumenn með liðinu í norsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Nú á liðið möguleika á að komast í Evrópudeildina þrátt fyrir að hafa gefið mikið eftir seinni hluta tímabilsins.
Viking byrjaði tímabilið mjög vel en þeir Indriði Sigurðsson, Björn Daníel Sverrisson, Jón Daði Böðvarsson, Sverrir Ingi Ingason og Steinþór Freyr Þorsteinsson urðu á endanum að sætta sig við tíunda sætið.
Viking endaði hinsvegar í fjórða sæti yfir prúðustu lið deildarinnar og það sæti gæti gefið liðinu sæti í Evrópudeildinni á næsta ári samkvæmt fréttum í norskum fjölmiðlum í dag.
Molde, Odd og Rosenborg voru þrjú prúðustu liðin í deildinni en þau er öll kominn með sæti í Evróukeppni enda einnig í þremur efstu sætunum í mótinu. Strömsgodset endaði í 4. sæti deildarinnar og verður einnig með í Evrópu á næsta ári.
Á síðasta tímabili fékk Tromsö sæti í Evrópukeppninni útfrá sömu forsendum. Það kemur hinsvegar ekki í ljós fyrr en í apríl hvort Viking-liðið komist sömu leið því þá mun UEFA gefa það út hvaða land fær "prúðmennskusætið".
Kemst Íslendinganýlendan í Evrópudeildina?
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti





Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti




Belgar kveðja EM með sigri
Fótbolti