Innlent

Ólöglegt lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, segist fá þó nokkrar fyrirspurnir um lögmæti lána.
Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, segist fá þó nokkrar fyrirspurnir um lögmæti lána.
Hæstiréttur dæmdi í gær gengislán, sem sveitarfélagið Skagafjörður tók hjá Lánasjóði sveitarfélaga ohf., ólöglegt.

Skagafjörður tók lánið hjá lánasjóðnum í erlendum gjaldmiðlum og taldi Hæstiréttur að lánið hefði verið í íslenskum krónum bundið með ólöglegum hætti við gengi erlendra gjaldmiðla.

Hagsmunir Skagafjarðar í málinu voru miklir, eða rúmar 115 milljónir króna. Með dómnum var viðurkennt að í mars 2012 stóð lánið í rúmum 103 milljónum króna en ekki rúmlega 218 milljónum líkt og lánasjóðurinn hélt fram.

„Það eru engir aðrir lánasamningar hjá okkur nákvæmlega eins og þessi,“ segir Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga ohf. Hann segir fordæmisgildi dómsins því vera takmarkað.

Lánasjóðurinn á í tvennum deilum fyrir dómstólum vegna uppgjörs á gengislánasamningum. Annars vegar við Fjarðabyggð en það mál hefur þegar verið dæmt í héraðsdómi þar sem samningurinn var talinn löglegur. Þá hefur Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins stefnt sjóðnum og er málflutningur fyrirhugaður í desember.

Óttar segir marga hafa samband við sjóðinn til að spyrjast fyrir um lögmæti lána sinna.

„Það er mjög mikill áhugi á Íslandi um þessar mundir fyrir því að borga ekki til baka lán sem fólk eða fyrirtæki hafa tekið,“ segir Óttar. - fbj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×