Vika er í boðaðar verkfallsaðgerðir hjá flugmönnum Icelandair. 9., 16., og 20.maí munu flugmenn fyrirtækisins leggja niður störf á klukkan sex um morguninn til sex síðdegis ef ekki semst fyrir þann tíma.
„Á meðan að það er verið að tala saman og vinna í þá átt þá er maður auðvitað vongóður um að samningar takist fyrir föstudaginn,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Þrátt fyrir hóflega bjartsýni Guðjóns, virðist engin sátt í sjónmáli. Deiluaðilar funduðu í dag án nokkurs árangurs. Ekki hefur fengist staðfest hverjar kröfur flugmanna eru en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins vilja þeir margfalt meiri hækkun en aðildarfélagar ASÍ fengu nýverið.
„Kröfur þeirra eru talsvert langt umfram það sem samið var um á almennum markaði og það sem meirihluti starfsmanna Icelandair samsteypunnar hefur samið um. Ég get þó ekki farið nákvæmlega út í kröfur flugmanna en eins og þeir hafa sjálfir sagt eru þær umtalsverðar.“

Formaður samninganefndar flugmanna sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að í ljósi þess hversu rekstur Icelandair gangi vel er krafa flugmanna um meiri hækkun en ASÍ fékk.
„Reksturinn hjá Icelandair hefur gengið vel undanfarin ár, það er alveg rétt. Blessunarlega er fyrirtækið mjög eftirsóttur vinnustaður, meðal annars vegna þess að það er hægt að bjóða hér upp á þokkalega góð starfskjör. Allir vita, held ég, að flugmenn eru vel launaðir og hafa svo sannarlega ekkert verið að dragast aftur úr hvað það varðar,“ segir Guðjón.