Innlent

Áhöfnin á Tý bjargaði 408 flóttamönnum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Týr við bryggju í Reykjavík.
Týr við bryggju í Reykjavík. Vísir/Vilhelm
Áhöfn varðskipsins Týs bjargaði í gær 408 flóttamönnum af flutningaskipi sem var staðsett 165 sjómílur austur af Möltu en þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Neyðarboð bárust frá skipinu snemma í gærmorgun og var með aðstoð eftirlitsflugvéla mögulegt að staðsetja skipið. Var þá óskað var eftir aðstoð Týs sem var skammt frá og kom varðskipið á staðinn um klukkan ellefu.

Þegar komið var að flutningaskipinu fóru fjórir varðskipsmenn um borð til að kanna ástandið um borð og virtist ástand flóttafólksins vera þokkalegt.

Þar sem engin áhöfn var til staðar á flutningaskipinu tóku varðskipsmenn yfir stjórn skipsins og settu stefnuna til lands ásamt Tý auk þess sem hlúð var að flóttafólkinu. Skömmu síðar stöðvaðist vél skipsins og var þá í samráði við ítölsk yfirvöld tekin ákvörðun um að flytja fólkið yfir í Tý og spænskt rannsóknarskip og þaðan til hafnar á Ítalíu.

Um átta klukkustundir tók að ferja fólkið yfir í varðskipið og rannsóknarskipið með hraðbátum varðskipsins en því verki lauk seint í gærkvöldi. Skipin stefna nú til suður Ítalíu og er áætlað að þau komi til hafnar um miðjan dag.

Þetta er í annað skiptið á innan við viku sem áhöfn varðskipsins bjargar stórum hópi flóttafólks á Miðjarðarhafi en fyrir helgi tók áhöfnin þátt í björgun 390 manns af öðru flutningaskipi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×