Enski boltinn

Neil Lennon gæti sett Eið beint í byrjunarliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Vísir/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen spilar væntanlega sinn fyrsta leik með Bolton um helgina þegar liðið mætir Ipswich í ensku b-deildinni í beinni á Stöð 2 Sport 2 á laugardaginn.

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton, vildi ekki gefa það upp á blaðamannafundi hvort Eiður Smári byrji leikinn eða ekki.

Bolton verður án framherjans Craig Davies í leiknum auk þess að sóknarmiðjumaðurinn Mark Davies hefur verið að glíma við meiðsli.

„Craig Davies mun missa af leiknum. Hann er tognaður aftan í læri og við tökum ekki áhættuna með hann," sagði Neil Lennon á blaðamannafundinum í morgun.

„Við höfum nokkra möguleika til að leysa fjarveru hans. Við höfum til dæmis verið ánægðir með það sem við höfum séð til Conor Wilkinson," segir Lennon en Wilkinson er 19 ára og 191 sm framherji.

„Við höfum líka Eið. Hvort að hann byrji leikinn eða ekki verðum við bara að bíða og sjá til með," sagði Lennon.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur spilað með varaliði Bolton en hann hefur ekki spilað alvöru mótsleik síðan með Club Brugge síðasta vor.

Flestir búast því við að Eiður Smári komi inná sem varamaður í fyrstu leikjum sínum með Bolton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×