Innlent

Staðfesta fangelsisdóm héraðsdóms fyrir þjófnað

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Norðurlands eystra um að 33 ára karlmaður fari í fangelsi í sex mánuði fyrir þjófnað. Maðurinn á langan sakaferil að baki og hefur margsinnis verið dæmdur fyrir þjófnaðarbrot, nytjastuld, brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöfinni og vegna brota á umferðalögum.

Brotið framdi hann fyrir uppsögu dóms vegna umferðalagabrots og var refsingin af þeim sökum ákveðin sem hegningarauki.

Málsvextir eru þeir að lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um hálftíma fyrir hádegi í ágúst í fyrra um mann í annarlegu ástandi sem hafði skömmu áður verið vísað út úr skóla í nágrenninu. Gekk hann um með nokkrar töskur og bakpoka og sást til hans fara inn í íbúð.

Lögregluþjónar komu að íbúðinni en þeim var ekki svarað. Þá sáu þeir manninn liggja hreyfingarlausan á stofugólfi íbúðarinnar, sem var í eigu foreldra hans. Í dómnum segir að hann hafi legið þar „klyfjaður bakpokum og töskum“. Munir úr íbúðarhúsi sem hann hafði farið inn í fundust í töskunum.

Þar var að finna lestölvu, leiðsögutæki, myndavél, fartölvu, flakkara, skrefamæli fjarstýringu, handfrjálsum símabúnaði, fimmtán heyrnatólum, silfurkúlu, vasaljósi og tólf pennum. Einnig stal hann hálsfestum, armböndum, úrum, eyrnalokkum, brjóstnælum og fleiri skartgripum ásamt skartgripaboxum og borðbúnaði úr silfri.

Lyfseðli, líkamsræktarkorti, sundkorti, afsláttarkorti, pilluspjaldi, barmmerki frá Bleiku slaufunni, evrópsku sjúkratryggingarkorti, tveimur vegabréfum, alþjóðlegu ökuskírteini og ýmiskonar pappírum og kvittunum.

Þar að auki stal hann öðrum rafbúnaði eins og snúrum og straumbreytum, ýmsum fötum, snyrtivörum, tvennum stökum hönskum, lyklakippum, DVD diskum, tveimur AA rafhlöðum, gleraugum, og peningum að fjárhæð 1.713 krónur og 1.175 dollurum auk fleiri hluta.

Í dómnum segir að hann hafi verið í mjög annarlegu ástandi og illa áttaður um stað og stund. Við yfirheyrslur bar maðurinn við minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu. Fyrir dómi játaði maðurinn allar sakagiftir skýlaust.

Maðurinn var dæmdur í sex mánaða fangelsi og til þess að greiða rúmar 125 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×