Innlent

Ekki hægt að rýma deildir til að þrífa þær

Þórhildur Þorkelsdóttir t skrifar
Sjúkrastofur á Landspítalanum eru yfirfullar og ekki er hægt að rýma deildir til að þrífa þær þegar skæðir smitsjúkdómar koma upp. Tæpum þremur vikum eftir að mósasmit kom upp á bráðalegudeild hefur ekki enn tekist að klára viðeigandi þrif. 

Fimm mósasmit hafa komið upp á bráðalegudeildum Landspítalans á þessu ári. Mósa-bakterían er skaðleg að því leyti að hún er ónæm fyrir sýklalyfjum sem gerir meðhöndlun erfiða, auk þess sem hún er bráðsmitandi.

Rúmanýting á spítalanum hefur verið um hundrað prósent síðasta ári  og hafa sjúklingar verið verið lagðir inn á ganga og kaffistofur. Staðan er því þannig að sjúklingar liggja inni á deildum þó þar hafi komið upp smit. 

„Við höfum ekki haft svigrúm til þess að tæma deildirnar svo við höfum þurft að þrífa í áföngum, sem er mjg þungt í vöfum. Þetta er erfitt fyrir sjúklingana og starfsfólkið, líka bara uppá allt verklagið sem tekur mun lengri tíma,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs.

Hlíf segir aðstæðurnar óviðunandi fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk. Spítalinn hafi endurtekið verið í þeirri stöðu að geta ekki rýmt deildir þegar svona kemur uppá.

„Það er áhyggjuefni hvað rúmanýtingin er há og hvað það er lítið svigrúm fyrir okkur til að takast á við svona uppákomur,“ segir hún.

Samkvæmt starfsfólki á gangi B7, sem nú er verið að þrífa í áföngum, er álagið gífurlegt. Fólkið vinnur nú hörðum höndum við að takmarka útbreiðsluna innan spítalans og uppræta smitið. Sótthreinsa þarf gardínur, rúmföt og borðbúnað, auk þess sem öllu því ekki er innsiglað í plast er hent, bleyjum, bókum, blöðum og svo mætti áfram telja.  Það er því óhentugt og tímafrekt fyrir starfsemina að geta ekki lokað deildinni og klárað viðeigandi þrif.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×