Innlent

Segir listasöfn í samkeppni við „fjársvelta myndlistarmenn“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Snorri Ásmundsson, myndlistarmaður
Snorri Ásmundsson, myndlistarmaður Vísir/Ernir
Snorri Ásmundsson, myndlistarmaður, gagnrýnir í færslu á Facebook-síðu sinni í dag að listasöfn sem ekki séu þekkt fyrir að greiða listamönnum laun fyrir sýningar sæki fjármagn í myndlistarsjóð.

Snorri segir það óréttlátt að söfnin, sem séu á fjárlögum, fari þannig í samkeppni við „fjársvelta myndlistarmenn“.

Með færslunni deilir Snorri grein sem fulltrúar safna og listamiðstöðva birtu í Fréttablaðinu í dag en þar hvetja þau stjórnvöld til að efla myndlistarsjóðinn í stað að skera niður framlög í sjóðinn.

Þar kemur fram að aðeins sé gert ráð fyrir 25 milljónum króna í sjóðinn á fjárlögum næsta árs en þrisvar hefur verið úthlutað úr sjóðnum frá því ný myndlistarlög tóku gildi árið 2012. Samkvæmt reglugerð um myndlistarsjóð sér myndlistarráð um að úthluta styrkjum úr sjóðnum.

Í reglugerðinni segir að hlutverk sjóðsins sé að „efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kostun verkefna sem falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. [...] Sjóðurinn veitir verkefnastyrki sem ætlaðir eru til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listverkefna.“

Söfn og listamenn geta sótt fjármuni í sjóðinn, óháð því hvort að safn sé á fjárlögum eða hvort að listamaður hljóti listamannalaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×