Innlent

Ekkert ferðaveður í dag: Mikil ófærð víða um land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikil ófærð er nánast um allt land.
Mikil ófærð er nánast um allt land. Mynd/Vegagerðin
Ekkert ferðaveður verður á landinu í dag. Spáð er stormi um allt land en versta veðrið verður á austanlands þar sem búist er við ofsaveðri. Veðrið fer svo hægt skánandi vestanlands síðdegis.

Þá er ófært víða um land.

Á Norðurlandi og Austurlandi er ófært eða þungfært á öllum leiðum. Þó er þæfingsfærð eða snjóþekja er á flestum leiðum fyrir vestan Blönduós.

Á Suðausturlandi er ófært frá Djúpavogi að Höfn. Frá Höfn að Kirkjubæjarklaustri er hálka og óveður og ekkert ferðaveður. 

Á Vestfjörðum er orðið fært milli Patreksfjarðar og Bíldudals en þar er snjóþekja og éljagangur. Einnig er fært frá Ísafirði til Bolungarvíkur, á Þingeyri og inn í Súðavík. Aðrar leiðir eru þungfærar eða ófærar.

Ófært er á Bröttubrekku, Svínadal og Laxárdalsheiði. Snjóþekja og stórhríð er á Holtavörðuheiði. Hálka eða snjóþekja er á öðrum leiðum á Vesturlandi. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Mýrum en snjóþekja og skafrenningur á öðrum leiðum á Snæfellsnesi.

Hálka og skafrenningur er á Hellisheiði og Sandsskeiði og snjóþekja í Þrengslum. Hálkublettir eru á nokkrum leiðum á Suðurnesjum. Þá er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum á Suðurlandi. Þæfingur og snjóþekja er á Suðurstrandavegi.

Þá er hálka og skafrenningur frá Reyðarfirði og með suðurströndinni. Óveður er í Hamarsfirði, í Öræfum og við Lómagnúp.

Veðurspáin í dag:

Spáð er norðan 15-23 metrum á sekúndu en 23-30 metrum á sekúndu um landið austanvert undir hádegi. Talsverð snjókoma og skafrenningur á Austur-og Norðurlandi.

Stöku él sunnan og vestan til, en skafrenningur einnig á þeim slóðum. Þá dregur smám saman úr vindi vestast á landinu síðdegis.

Frost 0-6 stig, en kólnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×