Innlent

Uber margfaldaði verð í Sydney eftir gíslatökuna

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Uber hækkaði verðskrá sína í Sydney í Ástralíu fjórfalt í nótt stuttu eftir að á annan tug einstaklinga voru teknir gíslingu á kaffihúsi í fjármálahverfi borgarinnar. Vefsíðan Mashable greindi frá þessu í nótt þar sem haft var eftir Uber-notanda að verðið hafi aldrei verið jafn hátt.



Í appi fyrirtækisins var hækkunin skýrð sem viðbrögð við óvenjulega mikilli eftirspurn eftir þjónustunni. Eftir að Mashable fjallaði um málið sendi Uber hinsvegar frá sér tilkynningu þar sem fram kom að öllum yrði ekið burt af svæðinu frítt og að þeir sem hefðu greitt hærra verð en venjulega fengju endurgreitt.

Sjá einnig: Segist hafa komið sprengjum fyrir í Sydney



„Við erum öll áhyggjufull yfir því sem er að gerast í Sydney,“ sagði Katie Curran, talsmaður Uber, í yfirlýsingunni. „Uber Sydney mun bjóða upp á frítt far úr fjármálahverfinu til að hjálpa Sydneyingum að komast örugglega heim.“



Erfiðlega gekk fyrir fólk í nágrenni við kaffihúsið þar sem gíslunum er haldið að komast burt af svæðinu. Almenningssamgöngur lömuðust og erfitt var að fá leigubíla. Nokkrar götur í nágrenni við kaffihúsið voru rýmdar.

Uber bíður upp á leigubílaþjónustu í gegnum sérstakt app sem tengir ökumenn við viðskiptavini. Greiðslur fara í gegnum appið sjálft.



Tengdar fréttir

Gíslataka í Sydney

Vopnaður maður, eða menn, heldur nú fólki í gíslingu á kaffihúsi í Sydney, Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×