Erlent

Systur réðust á menn í strætó sem áreittu þær kynferðislega

Atli Ísleifsson skrifar
Atvikið átti sér stað á föstudaginn í Haryana í norðurhluta Indlands. Annar farþegi tók atvikið upp á síma.
Atvikið átti sér stað á föstudaginn í Haryana í norðurhluta Indlands. Annar farþegi tók atvikið upp á síma.
Myndband af tveimur systrum sem slá til þriggja manna sem höfðu áreitt þær kynferðislega í strætisvagni á Indlandi hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum í dag.

Atvikið átti sér stað á föstudaginn í Haryana í norðurhluta Indlands. Farþegi tók atvikið upp á síma.

Systurnar Aarti og Pooja, 22 og nítján ára, voru á leið heim þegar árásin átti sér stað síðastliðinn föstudag.

Pooja segir í samtali við BBC Hindi að þremenningarnir hafi „ógnað og misnotað“ þær systur. „Ég sagði þeim að ef þeir myndu aftur snerta mig yrðu þeir barðir. Þeir hringdu þá í vin sinn og sögðu honum að koma þar sem „þeir þyrftu að berja einhverjar stelpur““.

Hún segir að systurnar hafi ákveðið að ráðast á mennina þegar engin hinna farþeganna kom þeim til aðstoðar. „Enginn í strætisvagninum kom til aðstoðar. Svo við tókum fram beltin okkar í sjálfsvörn [og slógum til mannanna]. Ef aðrir farþegar hefðu komið til aðstoðar hefðum við ekki þurft að svara fyrir okkur með þessum hætti.“

Systurnar segja að mennirnir hafi ýtt þeim út úr vagninum þegar hann var stöðvaður og ráðist þar á þær aftur. Þá hafi þær kastað múrsteini í átt að mönnunum sem hafi þá flúið af vettvangi. Lögregla hefur nú handtekið mennina og ákært þá fyrir árásina.

Ofbeldi gegn indverskum konum hefur verið mikið í umræðunni eftir að hópur karlmanna nauðgaði og myrti unga konu í höfuðborginni Delhi í desember 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×