Fótbolti

Stephanie í úrslitin um besta markið - keppir við James og Van Persie

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephanie Roche.
Stephanie Roche. Vísir/Getty
Glæsilegt mark írsku landsliðskonunnar Stephanie Roche er eitt af þremur flottustu mörkum ársins en þetta kom í ljós í dag þegar FIFA gaf út hvaða þrjú mörk urðu efst í netkosningunni og keppa um Puskas-verðlaunin í ár.

Stephanie Roche skoraði markið sitt fyrir írska liðið Peamount United í október 2013 en yfir þrjár milljónir hafa skoðað þetta magnaða mark hennar á Youtube. Það átti mikinn þátt í að hún fékk atvinnumannsamning í Frakklandi og FIFA ákvað síðan að velja markið hennar sem eitt af tíu mörkum ársins.  

Markið hennar Stephanie Roche endaði ekki aðeins í hópi tíu flottustu marka ársins því í kvöld varð það ljóst að hún komst alls í úrslitin á móti þeim James Rodriguez og Robin van Persie.

James Rodriguez og Robin van Persie skoruðu báðir mörkin sín á HM í Brasilíu, Rodriguez með frábæru skoti fyrir Kólumbíu á móti Úrúgvæ og Van Persie með glæsilegum skutluskalla fyrir Holland á móti Spáni.

Stephanie Roche getur því ennþá orðið fyrsta konan til að vinna Puskas-verðlaunin. Zlatan Ibrahimović vann þau í fyrra en áður höfðu þeir Miroslav Stoch (2012), Neymar (2011), Hamit Altintop (2010) og Cristiano Ronaldo (2009) skorað fallegast mark ársins.


Tengdar fréttir

Kona í keppni við Van Persie, Zlatan og Diego Costa

Zlatan Ibrahimovic, Robin van Persie, Diego Costa og James Rodríguez eru fjórir af frægustu knattspyrnumönnum heims og þeir skoruðu allir frábær mörk á síðasta ári. Kapparnir keppa um flottasta mark ársins hjá FIFA en þeir fá samkeppni úr óvæntri átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×