Erlent

Upphafsmenn mótmæla í Hong Kong vilja að þeim verði hætt

Atli Ísleifsson skrifar
Benny Tai, Chan Kin-man og Chu Yiu-ming ræddu við fréttamenn í morgun.
Benny Tai, Chan Kin-man og Chu Yiu-ming ræddu við fréttamenn í morgun. Vísir/AFP
Upphafsmenn Occupy Central-hreyfingarinnar í Hong Kong hafa ítrekað ákall sitt til mótmælenda um að mótmælum verði hætt.

Benny Tai, Chan Kin-man og Chu Yiu-ming greindu jafnframt frá því á fréttamannafundi fyrr í dag að þeir myndu gefa sig fram við lögreglu á morgun.

Occupy Central leiddi upphaflega mótmælin þar sem þess var krafist að frjálsar kosningar færu fram í sjálfstjórnarhéraðinu. Stúdentar hafa verið virkir í mótmælunum en dregið hefur úr þeim síðustu vikurnar.

Joshua Wong, leiðtogi stúdentanna, er nú byrjaður í hungurverkfalli og krefst fundar með fulltrúum yfirvalda til að ræða hugmyndir stúdentanna um lýðræðisumbætur.

Dómstóll í Hong Kong gaf á mánudag út tilskipun vegna mótmælanna sem staðið hafa yfir í landinu síðastliðna tvo mánuði. Samkvæmt tilskipuninni verður bannað að mótmæla á ákveðnu svæði vestur af fjármálahverfi Hong Kong, en þar hafa mótmælendur haldið til.

Tilskipunin kemur í kjölfar þess að til átaka kom á milli mótmælanda og lögreglu á sunndagskvöld. Þá beitti lögregla táragasi og kylfum til að dreifa mannfjöldanum sem kom saman við ríkisstjórnarbygginguna í landinu.


Tengdar fréttir

Hart barist í Hong Kong

Til mikilla átaka kom í Hong Kong í nótt á milli lögreglu og mótmælenda sem krefjast meira lýðræðis í borginni sem lýtur stjórn Kínverja. Mótmælin hafa nú staðið í rúma tvo mánuði en átökin í nótt eru með þeim harðari sem þar hafa orðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×