Fótbolti

„Læknirinn hringdi og sagðist hafa séð að ég væri með ebólu“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Michael Essien, leikmaður AC Milan, segir að sér hafi ekki verið skemmt þegar sögusagnir fóru á kreik á samfélagsmiðlinum Twitter að hann væri sýktur af ebóluveirunni.

Fyrir um tveimur mánuðum síðast fóru þessar fregnir svo hátt að málið rataði inn á borð fréttamiðla víða um heim. Essien var nýlega spurður um málið en hann tekur nú þátt í herferð sem beinist að því að útrýma veirunni.

„Þetta var sunnudagur. Ég æfði eins og venjulega um morguninn og fór svo heim um síðdegið og tók því rólega,“ sagði hann.

„Ég fékk svo símtal frá lækni félagsins og hann sagði mér að það væru komnar fréttir um að ég væri með ebólu. Ég sagði honum að hann hefði séð mig á æfingu um morguninn og því væri það ómögulegt.“

Hann segir að stuttu síðar hafi honum borist sífellt fleiri skilaboð vegna málsins og honum varð þá ljóst að þetta var ekkert grín.

„Ég var meira að segja farinn að fá batakveðjur og fjölskyldumeðlimir og vinir voru farnir að hafa samband til að athuga líðan mína.“

Essien ákvað því að bregðast við málinu og sendi út sameiginlega yfirlýsingu með AC Milan þess efnis að hann væri fullkomlega heill heilsu.

„En það tók fólk samt um tvo daga til að hætta að ræða um þetta. Þetta var ekki ánægjuleg reynsla,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×