Innlent

Heiðar að kaupa kröfur á alla föllnu bankana

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir
Heiðar Már Guðjónsson hagfræðingur og fjárfestir freistar þess nú að kaupa kröfur í slitabú Kaupþings og Landsbankans en hann hefur farið fram á gjaldþrotaskiptabeiðni yfir Glitni sem kröfuhafi bankans. 

Eins og fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá fyrir helgi hefur Heiðar óskað eftir gjaldþrotaskiptum á Glitni og að slitameðferð bankans verði stöðvuð. Heiðar á viðurkennda kröfu á Glitni banka í gegnum félagið Ursus ehf. upp á rúmlega þrjár milljónir króna en hann keypti kröfuna fyrir rúmum tveimur mánuðum. Hann hefur hins vegar ekki viljað upplýsa af hverjum hann keypti kröfuna og hefur sagt í samtali við fréttastofu að það skipti ekki máli í þessu samhengi.

Heiðar freistar þess nú að kaupa kröfur á bæði Kaupþing og gamla Landsbankann (LBI) með það fyrir augum að setja fram gjaldþrotabeiðni yfir þeim líka. Þetta kom fram í viðtali við Heiðar í Bítinu á Bylgjunni.  „Ég er að reyna að gera það. Reyna að ganga frá því,“ sagði Heiðar aðspurður hvort hann væri að reyna kaupa kröfur á Kaupþing og LBI. Hann sagðist í kjölfarið mögulega ætla að óska eftir gjaldþrotaskiptum á báðum slitabúum ef þetta gengi eftir.

Heiðar sagðist jafnframt í viðtalinu furða sig á þeirri ákvörðun að veita slitabúi gamla Landsbankans undanþágu til að greiða jafnvirði 400 milljarða króna í erlendum gjaldeyri til forgangskröfuhafa vegna Icesave en undanþágan var veitt á fimmtudag, sama dag og Heiðar óskaði eftir gjaldþrotaskiptum á Glitni.  

„Ég hefði ekki gefið Landsbankanum gamla 400 milljarða undanþágu. Ég hefði bara látið hann vera þar sem allir hinir eru líka. Það er þá undanþága sem er á kostnað almennings í landinu. Þessi viðskiptaafgangur sem er uppsafnaður frá hruni er um það bil 400 milljarðar króna. Langmest af þeim fjármunum hefur farið til kröfuhafa bankanna. Ekki til okkar, ekki til að styrkja gjaldeyrisvaraforðann eða borga niður skuldir,“ sagði Heiðar.

Meira þessu tengt: Mun gjaldþrotaleið einhverju breyta?Þorsteinn Einarsson hrl. útskýrir nýlegan dóm Hæstaréttar þar sem niðurstaðan var að ekki skiptir máli í hvaða mynt kröfur úr þrotabúum eru greiddar út svo lengi sem þær hafa verið umreiknaðar í krónur áður.  

Í umræddum dómi (Hrd. 707/2014) segir orðrétt: „Eigi þrotabú á hinn bóginn enn við skiptalok fé í erlendum gjaldmiðli standa ákvæði laga nr. 21/1991 því ekki í vegi, þótt til þess sé heldur engin skylda, að skiptastjóri inni af hendi til lánardrottna, sem fara með kröfur sem upphaflega voru í erlendri mynt, greiðslu í þeim gjaldmiðli eða öðrum til úthlutunar við skiptalok.“


Tengdar fréttir

Fer fram á gjaldþrotaskipti yfir Glitni

Íslenskur kröfuhafi í slitabú Glitnis hefur óskað eftir því að slitameðferð bankans verði stöðvuð og bankinn tekinn til gjaldþrotskipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×