Innlent

Skurðstofurnar nánast lokast

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Bæði almennir læknar og skurðlæknar hafa nú samþykkt að herða verulega verkfallsaðgerðir sínar eftir áramótin.
Bæði almennir læknar og skurðlæknar hafa nú samþykkt að herða verulega verkfallsaðgerðir sínar eftir áramótin. Vísir/Getty
Skurðstofur Landspítalans nánast lokast í byrjun næsta árs ef ekki tekst að semja við lækna í kjaradeilu þeirra. Aðeins verða framkvæmdar aðgerðir einn dag í viku.

Bæði almennir læknar og skurðlæknar hafa nú samþykkt að herða verulega verkfallsaðgerðir sínar eftir áramótin. Ljóst er að aðgerðirnar koma til með að hafa mikil áhrif á starfsemi Landspítalans og hvað mest á skurðdeildirnar.

„Þegar við ekki höfum ekki svæfingalækna, en þeir eru á öðrum vikum en við, þá getum við ekki gert aðgerðir. Þegar það er ekki rannsóknarstofan þá getum við ekki gert aðgerðir og þegar ekki eru deildarlæknar hjá okkur þá getum við ekki gert aðgerðir. Þannig að eftir áramótin frá 5. janúar verða í raun engar aðgerðir gerðar nema á föstudögum. Það falla niður allar aðgerðir, alla daga, annars í vikunni. Allar vikur,“ segir Helgi Kjartan Sigurðsson formaður Skurðlæknafélags Íslands.

Helgi Kjartan segir verkfallsaðgerðir lækna koma til með að hafa töluverð áhrif. „Við erum náttúrulega langt á eftir á almennu skurðdeildinni þar sem ég starfa þar er biðlistinn okkar um fimm hundruð manns á lista. Það eru níu hundruð á bæklunarskurðdeild. Þegar það falla niður aðgerðir heilar vikur þá hleðst náttúrulega þetta upp,“ segir Helgi Kjartan. Hann telur að það geti tekið marga mánuði að vinna niður biðlista eftir aðgerðum. Hann leggur þó áherslu á að öllum bráðatilfellum verði sinnt.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, hefur miklar áhyggjur af áhrifum verkfallsaðgerðanna á spítalann. Hann segir ef af verði hafi þær gríðarleg áhrif á skurðdeildir spítalans.

„Nánast loka skurðstofustarfseminni ef að það yrði. Við skulum hafa það í huga að það hefur þegar þurft að fresta hátt í fimm hundruð skurðaðgerðum. Það er ljóst að ástandið gerir ekkert annað en að versna,“ segir Ólafur.

Fundi samninganefndar skurðlækna með samninganefnd ríkisins lauk án árangurs í dag og hefur enginn nýr fundur verið boðaður í deilunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×