Innlent

Óska skýringa vegna sendingar upplýsinga um Omos

Samúel Karl Ólason skrifar
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Tómasdóttir.
Gísli Freyr Valdórsson og Sigríður Björk Tómasdóttir. Vísir
Persónuvernd hefur sent lögreglunni á Suðurnesjum bréf þar sem óskað er eftir skýringum varðandi sendingu Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur á greinargerð um málefni hælisleitanda sem send var til Gísla Freys Valdórssonar í innanríkisráðuneytinu.

Gísli Freyr, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, óskaði eftir gögnum um málefni Tony Omos í símtölum sem hann átti við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum daginn sem fréttir birtust upp úr minnisblaði sem hann lak.

Í samtölum sínum óskaði Gísli Freyr meðal annars eftir greinargerð frá embættinu um málefni Omos sem tengdust hælisumsókn hans og því að hann var eftirlýstur á þessum tíma. Talið var að hann væri í felum á Suðurnesjum, samkvæmt Sigríði. Hann hefur verið dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka gögnum um hælisleitandann.

Bréf Persónuverndar í heild sinni:

Persónuvernd vísar til frétta í fjölmiðlum um samskipti lögreglunnar á Suðurnesjum og annars af aðstoðarmönnum innanríkisráðherra hinn 20. nóvember 2013, þ. á m. greinargerðar varðandi málefni  [hælisleitandi] sem lögreglustjóri sendi umræddum aðstoðarmanni í tölvupósti.

Svo að vinna megi með persónuupplýsingar þarf ávallt að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Sé um að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 8. tölul. 2. gr. sömu laga, þarf einnig að vera fullnægt einhverju af skilyrðum 9. gr. laganna. Þá verður miðlun persónuupplýsinga frá lögreglu til annarra stjórnvalda að fullnægja kröfum 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu sem sett er með stoð í meðal annars 3. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000.

Mál þetta var rætt á fundi stjórnar Persónuverndar í dag. Í samræmi við ákvörðun á þeim fundi er þess hér með óskað að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skýri frá því hvaða upplýsingum var miðlað til innanríkisráðuneytisins með sendingu umræddrar greinargerðar. Þá er þess óskað að fram komi hvernig sú miðlun er talin horfa við ákvæðum 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, sem og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 322/2001.

Jafnramt er þess óskað að afrit af umræddri greinargerð verði sent Persónuvernd. Svarfrestur er veittur til 3. desember nk.Tengdar fréttir

Gísli ræddi við Sigríði daginn sem gögnin voru birt

Aðstoðarmaður innanríkisráðherra átti í talsverðum samskiptum við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, þáverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, daginn sem fréttir birtust byggðar á leka úr ráðuneytinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.