Erlent

Sænsk kona var látin í íbúð sinni í tvö ár

Atli Ísleifsson skrifar
Einn nágranna konunnar greindi þá frá því að hann hafi ekki séð konuna í nokkur ár.
Einn nágranna konunnar greindi þá frá því að hann hafi ekki séð konuna í nokkur ár. Vísir/Getty
Lögregla í Svíþjóð fann í síðustu viku konu á áttræðisaldri látna á heimili sínu í Karlstad. Talið er að hún hafi látist fyrir að minnsta kosti tveimur árum síðan.

Í frétt Dagens Nyheter segir að húsvörður í fjölbýlishúsinu þar sem konan bjó hafi í síðustu viku tekið eftir raka í vegg og hafi viljað kanna hvort rakinn hafi einnig náð inn í íbúðirnar. „Við gerðum við skemmdirnar að utan en óttuðumst að það hafi komið vatn frá íbúðunum þremur á þessari hlið hússins,“ segir Bo-Lennart Christensen, framkvæmdastjóri húseigendafélagsins í samtali við DN.

Leigjendur í tveimur íbúaðanna opnuðu þegar bankað var, en konan í íbúðinni svaraði hvorki í síma né þegar var bankað. Einn nágrannanna greindi þá frá því að hann hafi ekki séð konuna í nokkur ár.

Christensen leitaði því til yfirvalda og fékk heimild til að leita til lásasmiðs og fara inn í íbúðina.

„Það var haugur af pósti og auglýsingabæklingum fyrir innan og fulltrúi sýslumanns kom fljótlega aftur út og sagðist hafa fundið konuna látna.“

Að sögn lögreglu fundust gögn sem bentu til þess að konan hafi verið látin í íbúðinni í rúm tvö ár.

„Maður hugsar að sjáfsögðu að það sé ekki gott að einhver geti legið svo lengi án þess að nokkur verði þess var, að við fylgjumst ekki betur með nágrönnum okkar. Er maður á eftirlaunum og með beinar skuldfærslur í banka þá er mögulegt að lifa einn, og deyja, án þess að nokkur taki eftir því,“ segir Christensen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×