Innlent

Marinó ætlar ekki að þiggja skuldaleiðréttinguna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Fyrrverandi stjórnarmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, sem barist hefur hvað mest fyrir bættum hag skuldara, vill að sú fjárhæð sem falli til fari í sjóð sem hafi það að tilgangi að byggja upp heilbrigðiskerfið.
Fyrrverandi stjórnarmaður Hagsmunasamtaka heimilanna, Marinó G. Njálsson, sem barist hefur hvað mest fyrir bættum hag skuldara, vill að sú fjárhæð sem falli til fari í sjóð sem hafi það að tilgangi að byggja upp heilbrigðiskerfið.
Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og fyrrverandi stjórnarmaður í Hagmunasamtökum heimilanna, er á meðal þeirra níutíu þúsunda sem sótti um skuldaleiðréttinguna svokölluðu. Hann ætlar ekki að þiggja leiðréttinguna en skorar þess í stað á ríkisstjórnina að þeir peningar sem svona falla til, lágar upphæðir eða háar, fari í sjóð sem hafi það þjóðþrifaverkefni að byggja upp heilbrigðiskerfið í landinu og bæta stöðu öryrkja og aldraðra. Marinó er á meðal þeirra sem barist hefur hvað mest fyrir bættum hag skuldara.

Hann vill því skora á formenn stjórnmálaflokka á þingi, sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu sinna lána, að gera slíkt hið sama.

„Þannig að, Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, við biðjum ykkur að leggja við hlustir og sjá til þess að þetta verði gert mögulegt,“ skrifar Marinó á vefsíðu sína.

Hann skorar ekki einungis á stjórnmálamenn heldur á alla þá sem sóttu um og geta fengið leiðréttingu, en telja sig ekki á henni halda. „Telja upphæðina svo litla að hún skipti ekki máli, telja sig fá óbragð í munninn við að þiggja hana, telja leiðréttinguna vera illa meðferð á almannafé eða hafa talað gegn leiðréttingunni af hvaða ástæðu sem er, að þiggja ekki leiðréttinguna með ósk um að sú upphæð, sem þeim var úthlutað, fari í sjóð til uppbyggingar á heilbrigðiskerfinu og til málefna öryrkja og aldraðra,“ skrifar Marinó jafnframt.

Að lokum skorar hann á öll fyrirtæki í landinu til að greiða litlar eða stórar fjárhæðir til slíks sjóðs.


Tengdar fréttir

Þiggja féð með óbragð í munni

Ýmsir sem nú fá hluta húsnæðisskulda sinna niðurfellda eru hreinlega með móral – því þeim finnst aðgerðin ranglát.

62 þúsund fóru á heimasíðu leiðréttingarinnar í gær

Vel gekk hjá starfsmönnum Ríkisskattstjóra að þjónusta þá sem fengu leiðréttingu á húsnæðislánum sínum frá ríkisstjórninni í gær. Metfjöldi heimsótti heimasíðu aðgerðanna. Hart var tekist á um aðgerðirnar á þingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×