Innlent

Starfsfólk RSK vinnur fram á kvöld við að svara fyrirspurnum

Heimir Már Pétursson skrifar
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Vísir/Anton Brink
Miklar annir eru hjá Ríkisskattstjóra við að svara fyrirspurnum frá fólki vegna útreikninga á niðurfærslu húsnæðislána. Starfsfólk embættisins mun vinna fram á kvöld við að svara tölvupóstum eftir að símaveri lokar klukkan fjögur.

Niðurstöður í útreikningum um 90 þúsund umsókna um leiðréttingu á höfuðstól húsnæðislána voru birtar á vef leiðréttingarinnar á miðnætti. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir aukin viðbúnað hjá embættinu vegna fyrirspurna frá almenningi.

„Það eru núna 37 á bið í símanum þannig að það er dálítið mikið hringt hingað. Við erum búin að vrkja þjónustuver Ríkisskattstjóra inn í þetta verkefni ásamt þeim hópi sem vinnur við þetta frá degi til dags. Þannig að núna eru þetta á bilinu 25 til 30 manns sem eru að svara símanum,“ segir Skúli Eggert.

Aðalþjónustuverið á Akureyri og Siglufirði svari einnig fyrirspurnum. Þegar við ræddum við Skúla Eggert fyrir hádegi voru 1.400 manns inni á vef leiðréttingarinnar en það sem af er morgi hafi mest verið 3.000 manns samtímis á vefnum.

„Það er nú kosturinn við þetta að menn staldra stutt við, þ.e.a.s. þetta eru tiltölulega einfaldar upplýsingar og aðgengilegar að því leitinu til að menn eru fljótir að sjá niðurstöðuna og eru því fljótir að fara út. Það hjálpar til við að halda vefnum gangandi,“ segir Skúli Eggert.

Erfitt sé að meta á þessari stundu hverjar séu algengustu spurningar frá fólki. En fyrirspurnum í síma verði svarað til klukkan fjögur í dag.

„Við erum ekki farin að líta á þá tölvupósta sem koma. Það verður ekki hægt að gera það fyrr en eftir klukkan fjögur. Þá verður byrjað að vinna úr þeim tölvupóstum sem komu í nótt og það sem af er degi og síðan auðvitað áfram. En ég geri ráð fyrir að það sé þá helst um það að það vant tiltekin lán inn  eða eitthvað þess háttar. Einhverjar slíkar athugasemdir,“ segir Skúli Eggert.

Starfsfólki verði að svara tölvupóstum langt fram á kvöld og þannig verði það væntanlega næstu daga og jafnvel vikur. Enn sem komið er gangi þetta allt vel miðað við hvað þetta sé flókin aðgerð.

„Það er töluvert mikið hringt. Meira en kannski en við áttum von á og það er einnig komið töluvert af athugasemdum en það er lítil gangandi umferð,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×