Innlent

Stress hefur alvarlegri áhrif á hjartaheilsu kvenna en karla

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hjartasjúkdómar valda flestum dauðsföllum í heiminum og hrjá almennt karlmenn frekar en konur.
Hjartasjúkdómar valda flestum dauðsföllum í heiminum og hrjá almennt karlmenn frekar en konur. vísir/getty
Konur eru í meiri hættu en karlar á að fá hjartasjúkdóm sem orsakast af stressi, andlegri streitu og konur upplifa alvarlegri vandkvæði undir mikilli streitu heldur en karlar. Hjartalíf greinir frá þessu en þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem birtist í the Journal of American Collage of Cariology í október.

Þátttakendur rannsóknarinnar voru 310 eða 56 konur og 254 karlar sem greind höfðu verið með hjartasjúkdóm. Öll voru þau þegar þátttakendur í rannsókn sem nefnist REMIT og skoðar áhrif lyfsins Escitalopram samanborið við lyfleysu á hjartasjúkdóm sem kemur sökum streitu.

Aukning á neikvæðum tilfinningum

Rannsóknin leiddi í ljós að meiri breytingar urðu á blóðþrýstingi og hjartsláttartíðni karla vegna streitu en þær breytingar sem urðu á líkama kvenna í kjölfar stressins voru hættulegri. Þá greindu konurnar frá aukningu á neikvæðum tilfinningum.

Konurnar urðu frekar fyrir minnkuðu blóðflæði til hjartans, eða blóðþurrð í hjartavöðvanum, sem getur eyðilagt hjartavöðvann. Einnig sýndu fleiri konur í rannsókninni merki um myndum blóðtappa en blóðtappar geta stíflað æðar og þannig leitt til hjartaáfalls.

„Sambandið á milli stress og hjartasjúkdóma er vel þekkt. Þessi rannsókn hefur leitt það í ljós að stress hefur mismunandi áhrif á hjartaheilsu karla og kvenna. Við verðum að viðurkenna þennan mun þegar við erum að meta og meðhöndla einstaklinag með hjartasjúkdóma,“ segir Dr. Zainab Samad, við Duke University Medical Center í Bandaríkjunum og leiðbeinandi rannsóknarinnar.

Skoða þurfi tengsl kynjamuns á viðbrögðum hjartans

„Á þessum tímapunkti er þörf á frekari rannsóknum til að skoða tengsl þessa kynjamuns á viðbrögðum hjartans við andlegu stressi og skoða einnig langtíma útkomur“.

Að lokum bætti Samad við að núverandi tæki sem til eru til að mæla áhættu á hjartasjúkdómum séu ófullnægjandi þar sem þau taka áhrif sálfræðilegrar streitu á líkamann ekki með í reikninginn.

Hjartasjúkdómar valda flestum dauðsföllum í heiminum og hrjá almennt karlmenn frekar en konur, en eftir 50 ára aldurinn þá jafnast líkurnar á hjartasjúkdómum og eru svipaðar hjá körlum og konum.

Þátttakendur rannsóknarinnar tóku þátt í þremur andlega streituvaldandi verkefnum - verkefni í hugarreikningi, teikna upp eftir spegli, og að muna reiði (e. recall anger) í ákveðnu prófi. Í kjölfarið gerðu þátttakendur æfingu á hlaupabretti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×