Innlent

Gosmengun á höfuðborgarsvæðinu

Vísir/Egill Aðalsteinsson
Loftgæði voru slæm fyrir viðkvæma á höfuðborgarsvæðinu og allt upp á Grundartanga um sexleytið í morgun, nema á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði þar sem þau töldust sæmileg. Þau voru einnig slæm á Hellisheiði,  í Hveragerði og víðar á Suðurlandi.

Annars er búist við froststillu á gosstöðvunum, en við slíkar aðstæður eru auknar líkur á háum styrk mengunar, að sögn Veðurstofunnar.

Þegar kemur fram á daginn má búast við sunnan- og suðvestan andvara og verða þá líkur á mengun  norðan og austan við gosstöðvarnar í Holuhrauni og gosmóða gerir væntanlega vart við sig víða um land í dag.

Ekkert lát er á gosinu og skjálftavirkni, einkum í Bárðarbungu. Þar mældust fjórir skjálftar upp á fjögur til fimm stig í gær.

Uppfært klukkan 8:53

Loftgæði eru nú víða slæm á Suðvesturlandi. Samkvæmt vef Umhverfisstofnunar eru loftgæði „slæm fyrir viðkvæma“.  

Brennisteinsdíoxíð mælist á bilinu 700-1600 µg/m³ á svæðinu frá Hveragerði að Grundartanga. Verst mælast loftgæðin í Grafarvogi í Reykjavík.

Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands er búist við froststillu á gosstöðunum í Holuhrauni en við þær aðstæður má búast við að háum styrk mengunar. Einkum suðvestantil fyrripart dags. Þegar kemur fram á daginn má búast við mengun á svæðunum norðan og austan við eldstöðina.

Almenningur er hvattur til þess að kynna sér leiðbeiningar yfirvalda sem finna má á vef Umhverfisstofnunar og á vef almannavarna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×