Innlent

Boða til mótmæla á ný fyrir utan Alþingi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Um 4.500 mótmælendur mættu á Austurvöll á mánudag.
Um 4.500 mótmælendur mættu á Austurvöll á mánudag. Vísir / Ernir
Um þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli gegn ríkisstjórninni og samstöðufundar með heilbrigðiskerfinu næstkomandi mánudag. Boðað er til mótmælanna á Facebook og eru þau önnur skipulögðu mótmælin í mánuðinum.

Í þetta sinn eru það samtökin Jæja sem boða til mótmælanna en í tónlistarmaðurinn Svavar Knútur boðaði til síðustu mótmæla. Þá mættu um 4.500 manns á Austurvöll til að mótmæla ýmsum aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Á Facebook-síðu mótmælanna er fólk kvatt til að mæta með fána og skilti auk „vasa-, höfuð- eða tjaldljós til að vísa stjórnmálamönnum veginn“. Þar kemur einnig fram að fleiri mótmælafundir séu framundan.

Skilaboð mótmælanna, samkvæmt síðu samtakanna, eru að ríkisstjórnin sé „orðin eins og óvelkominn gestur í samfélagi lýðræðis, velferðar og jafnaðar“.


Tengdar fréttir

Kröftuglega hamrað á girðingar lögreglu

4.500 manns komu saman á Austurvelli í gær til þess að mótmæla ríkisstjórn Íslands. Mótmælin voru þó að mestu leyti friðsamleg en lögreglan var við öllu búin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×