Innlent

Áhrifamiklir Ísraelar vildu sölsa undir sig .is lénið

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Jens Pétur Jensson, framkvæmdastjóri ISNIC.
Jens Pétur Jensson, framkvæmdastjóri ISNIC.
Á fundi umhverfs- og samgöngunefndar Alþingis í morgun kom fram að áhrifamiklir og fjársterkir aðilar frá Ísrael reyndu að fá lénið .is skráð á Ísrael. Á fundinum fullyrti einn gestur nefndarinnar þetta; Jens Pétur Jensen, framkvæmdastjóri ISNIC. Fyrirtækið ISNIC sér um skráningu léna með endinguna .is, sem er auðkenni Íslands á netinu.

Ísrael er aftur á móti með endinguna .il, en Jens segir að áhrifamenn hafi einmitt viljað breyta því.

Lokun forsvarsmanna ISNIC á lén sem keypt voru af samtökunum Íslamska ríkið var til umræðu á fundinum og var Jens einn af fjórum fulltrúum ISNIC.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður nefndarinnar, spurði forsvarsmenn fyrirtækisins hvort þeir hefðu farið yfir landslög og fundið réttlætingu á ákvörðun á loka léninu þar. Hann sagði einnig að fólk hræddist mjög takmörkun á frelsi netsins eins og Kínverjar væru með.

Steindór Dan Jensen, lögfræðingur ISNIC, sagði að menn innan fyrirtækisins hefðu vissulega kynnt sér landslög og vísaði í nokkrar greinar. Jens sagði að það væri ekki stefna fyrirtækisins að loka lénum. Hann sagði ákvörðunina algjörlega fordæmalausa.

Hann sagði að stefna fyrirtækisins væri að verja lén með endingunni .is, sem væri auðkenni Íslands á netinu. Hann sagði að stefna Íslamska ríkisins (sem á ensku er kallað Islamic State og skamstafað IS) hafi verið að láta líta út fyrir að .is væri auðkenni samtakanna. Slíkt myndi rýra gildi .is lénsins. Hann benti á að áður hafi þetta verið reynt:

„Mikið af mikilvægu fólki frá Ísrael hafði samband við okkur og ætlaði að markaðsetja .is fyrir Ísrael. Við stóðum bara fastir í fæturnar.“

Á fundinum kom fram að það taki langan tíma fyrir ríki að fá útlhutað lénum og þau þurfi að verja og vernda. Og var það hluti útskýringa sem forsvarsmenn ISNIC notuðu til þess að réttlæta þá ákvörðun að loka á Íslamska ríkið, eins og kom fram á Vísi fyrr í dag.


Tengdar fréttir

Óttuðust að IS myndi sækja í .is

Jens Pétur Jensen frá ISNIC og Aðalheiður Ámundadóttir frá IMMI ræddu um íslenska heimasíðu Íslamska ríkisins í Bítinu í morgun.

ISNIC lokar vef ISIS

ISNIC hefur ákveðið að loka lénum sem notuð voru fyrir vefsíðu yfirlýstra hryðjuverkasamtaka en þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Síðu IS lokað af Advania

Vefhýsirinn Advania hefur lokað fyrir vefsíðuna khilafah.is, fréttasíðu öfgasamtakanna Íslamskt ríki, sem skráð var á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×