Innlent

Á miðnætti skellur verkfall lækna á

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
vísir/gva
Á þriðja hundrað læknar leggja niður störf á miðnætti í kvöld. Verkfallið skapar mikla óvissu á Landspítalanum en það nær einnig til lækna á heilbrigðisstofnunum um allt land.

Engir samningafundir hafa verið í deilunni um helgina og heldur engar þreifingar. Deiluaðilar ætla ekki að hittast fyrr en klukkan fjögur á morgun og því nokkuð víst að verkfall hefst á miðnætti. Kjarasamningar lækna hafa verið lausir í níu mánuði og hefur lítið þokast í samkomulagsátt á milli deiluaðila, það er lækna og ríkisins. Í byrjun mánaðarins ákváðu læknar að boða til verkfalls og taka níu hundruð læknar þátt í verkfallsaðgerðum.

Þetta er í fyrsta sinn sem læknar fara í verkfall frá því þeir fengu verkfallsréttinn fyrir 30 árum síðan. Þeir leggja þó ekki allir niður störf í einu heldur gera þeir það í nokkrum hópum. Í fyrsta hópnum sem leggur niður störf í kvöld og verður í verkfalli næstu tvo sólarhringana eru á þriðja hundrað læknar. Þetta eru læknar á heilbrigðisstofnunum um allt land, heilsugæslum og á Landspítalanum. Á spítalanum eru það læknar á Barnaspítalanum, kvennadeild og rannsóknarsviði sem fara í verkfall í kvöld.

Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum, segir verkfallið skapa mikla óvissu fyrir spítalann. Öllum bráðatilfellum verði þó sinnt. Þá telur Ólafur að svo geti farið nokkuð álag myndist á bráðamóttöku ef að sjúklingar taka að leita þangað í auknu mæli vegna verkfallsins.  Það skal þó tekið fram að læknar sem vinna á einkastofum  mæta til vinnu á morgun.

Þá fara læknar í verkfall á öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Yfirlæknir mætir á hverja heilsugæslu og stofnun fyrir sig og sinnir þar bráðatilfellum. Ekki verður hægt að fá lyf endurnýjuð nema um lífsnauðsynleg lyf sé að ræða. Hjúkrunarfræðingar mæta hins vegar til vinnu og þá verður mæðra- og ungbarnavernd sinnt eins og venjulega af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×