Innlent

Pýramídi málaður í Grafarvogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Pýramídinn málaður í síðustu viku.
Pýramídinn málaður í síðustu viku. Vísir/Pjetur
„Þetta er fyrsti pýramídi landsins. Það ber að fagna því,“ segir Eyþór Guðjónsson hjá Skemmtigarðinum í Grafarvogi. Eyþór og félagar eru að reisa fjórða lasertag-völlinn sinn sem er sá stærsti á landinu að hans sögn.

„Það veit enginn hvort það sé launhelgirit eða helgir spádómar í pýramídanum,“ segir Eyþór léttur. Ólíkt því sem blaðamaður taldi fullyrðir Eyþór að nú sé annasamasti tíminn hjá Skemmtigarðinum. Fyrirtæki landsins séu með hvataferðir, skólarnir séu farnir af stað og svo eigi fólk afmæli eins og á öðrum tímum árs.

Aðspurður hvort lasertag sé ekki aðallega skemmtun innandyra segir Eyþór svo ekki vera. Vellirnir úti séu miklu stærri og byssurnar séu með miði og laser sem drífi fleiri hundruð metra.

„Að vera tólf ára gutti í byssó á svona velli með þessum græjum er draumi líkast,“ segir Eyþór og bætir við að fullorðnir hafi ekki síður gaman af.

Engin plön eru um að fylgja eftir pýramídanum með Skakka turninum í Písa eða Eiffel-turinum.

„Við skulum sjá til hvernig þessu ríður af.“

Pýramídavöllurinn er einn af fjórum lasertag völlum í Skemmtigarðinum.Vísir/Pjetur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×