Innlent

„Ef þú borgar ekki sektina vona ég innilega að þú komir aldrei aftur til landsins"

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ferðamaðurinn íhugar að borga ekki 23 þúsund króna sekt.
Ferðamaðurinn íhugar að borga ekki 23 þúsund króna sekt.
Á vefnum Reddit má sjá frásögn ferðamanns sem fékk hraðasekt þegar hann var staddur hér á landi. Ferðamaðurinn íhugar borga ekki sektina, sem hljóðar upp á 23 þúsund krónur. Nokkrir Íslendingar hafa svarað honum og eru ósáttir með þessa hugmynd hans; að borga ekki sektina. „Ef þú borgar ekki sektina vona ég innilega að þú komir aldrei aftur til landsins,“ segir einn notandi Reddit við hann.

Naut ferðarinnar

Ferðamaðurinn segir frá því að hann hafi leigt bíl á Íslandi og ekið um landið. Hann tekur sérstaklega fram að hann hafi notið verunnar hér á landi einstaklega vel. Þegar heim var komið fékk hann bréf inn um lúguna þar sem honum var tjáð að hann hafi náðst á mynd í einni hraðamyndavél. Hann segir frá því hvernig hann hafði samband við lögregluna hér á landi þar sem hann ræddi við konu sem ætlaði að taka niður kreditkortanúmer mannsins, svo hann gæti borgað sektina. „Rétt eftir að hún spurði mig um kreditkortanúmerið fór ég að hugsa….Þar sem ég er ekki íslenskur ríkisborgari, hvað myndi eiginlega gerast eg ég myndi ekki borga sektina?“

Ferðmaðurinn segir frá því að konan á hinum endanum hafi sagt honum að í raun myndi ekkert gerast. „Hún sagði meira að segja að í svona málum treysti lögreglan á sanngirni fólks.“

Ferðamaðurinn segir svo frá því að þegar konan hafi aftur beðið hann um kreditkortanúmerið hans hafi hann sagst ætla að hugsa sig um og kemur inn á að honum hafi þótt sektin of há. „Svo ég spyr ykkur fallegu íslensku ríkisborgara […] er það virkilega svo að það séu engar slæmar afleiðingar að borga ekki sektina?“ spyr hann á Reddit. Hann segist vera að íhuga að gefa frekar einhverja upphæð til góðgerðafélags hér á landi, til þess að láta sér líða betur með ákvörðun sína að borga ekki sektina.

Ferðamaðurinn segir að hann óttist helst að þetta hafi einhverjar afleiðingar komi hann aftur til landsins, en hann segir það öruggt að hann ætli að koma aftur því hann naut verunnar á Íslandi.

Vona að hann komi aldrei aftur

Skrif ferðamannsins hafa vakið nokkra athygli. Svo virðist sem Íslendingar á Reddit hafi tekið sig sérstaklega til og svarað manninum. Vinsælasta svarið við færslunni er frá notanda sem kallar is iVikingr. Hann segir:

„Ég held að það sé rétt hjá þér, það eru engar slæmar afleiðingar af því að borga ekki sektina. En það er samt ekki alveg öruggt.Ef þú vilt mitt álit í algjörri hreinskilni, verandi íslenskur ríkisborgari: Ef þú borgar ekki sektina vona ég innilega að þú komir aldrei aftur til landsins.“

Margir aðrir taka í sama streng. Einn notandi spyr ferðamanninn hvernig hann geti verið að velta þessu fyrir sér. Hann hafi brotið lög. Hann segir honum á kaldhæðnislegan hátt að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af afleiðingunum. „Við ELSKUM að fá fleira fólk eins og þig til landsins á þröngum vegum landsins. Hvað með smá utanvegarakstur næst þegar þú kemur? Ekki hafa áhyggjur, það getur haft skemmt náttúruna að eilífu, en þú þyrftir samt ekki að borga sektina upp á eitt til fjögur þúsund og fimmhundruð dala sekt.“

Ferðamaðurinn fær mörg önnur skilaboð á svipuðum nótum.

En einhverjir hvetja hann þó til þess að borga ekki sektina. „Vinsamlegast borgaðu ekki sektina. Kveðja, Íslendingur sem berst gegn umsvifum ríkisins og starfar í ferðamannabransaum.“

Annar notandi Reddit, sem kallar sig Bjozzi segir: „Vá, fólk hérna tekur þessum hraðasektum mjög alvarlega.“ Hann segir að hámarkshraðinn á Íslandi eigi ekki að vera heilög tala. „Íslendingar vita hvar þessar hraðamyndavélar eru og hægja á sér þegar þeir sjá þær,“ útskýrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×