Innlent

Sjálfstæðismenn vilja endurskoða sektir á fjölmennum viðburðum

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sjálfstæðismenn vilja fækka svona atvikum.
Sjálfstæðismenn vilja fækka svona atvikum.
Sjálfstæðismenn hafa lagt það til, í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, að meðal annars skoða sérstaklega að heimila lagningu bifreiða á ákveðnum svæðum nálægt íþróttaleikvöngum við sérstakar aðstæður.

Tillaga snýr, með öðrum orðum að því, að sekta síður fólk á fjölmennum viðburðum. Um hana hafa spunnist nokkuð líflegar umræður á Facebook, meðal annars á Facebook-síðu Íbúasamtaka Vesturbæjar. Þar hefur hugmyndin verið gagnrýnd nokkuð, meðal annars af Grími Atlasyni, fyrrverandi bæjarstjóri Bolungarvíkur og varaþingmaður fyrir Vinstri græna, og Evu H. Baldursdóttur, varaborgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna, opnaði umræðuna á Facebook-síðunni og lýsa margir því yfir að þeir taki tillögunni fagnandi.

Kári Sölmundarson, fulltrúi Sjállfstæðisflokksins í hverfisráði miðborgarinnar, hefur einnig lýst sig ósammála tillögunni og segir hana ekki í samræmast stefnu Sjálfstæðisflokksins og segir að tillagan ætti frekar að ganga út á KSÍ selji aðgang að bílastæðum við Laugardalsvöll.

Efna til viðræðna

Orðrétt hljómar tillaga Sjálfstæðismanna svo:

„Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að efna til viðræðna milli borgaryfirvalda, Íþróttabandalags Reykjavíkur og lögreglunnar vegna bílastæðavanda við keppnisleikvanga og íþróttahús íþróttafélaganna í borginni. Framkvæmdastjóra ÍTR er falið að setja starfshóp á laggirnar með fulltrúum frá þessum aðilum, sem kortleggi vandamálið og komi með tillögur til úrbóta. Skoðað verði sérstaklega að heimila lagningu bifreiða á ákveðnum svæðum nálægt íþróttaleikvöngum við sérstakar aðstæður, þ.e. meðan á fjölsóttum íþróttaleikjum stendur. Í starfi hópsins verði rík áhersla lögð á samráð og samvinnu við öll hverfisíþróttafélög borgarinnar. Stefnt skal að því að hópurinn skili áliti ásamt tillögum til úrbóta fyrir 1. apríl 2015.“

Í skrifum Kjartans Magnússonar kemur fram að afgreiðsla tillögunnar hafi verið frestað til næsta fundar ráðsins.

Líflegar umræður

Líflegar umræður spunnust upp á facebook-síðu Íbúasamtaka Vesturbæjar. Grímur Atlason segir til dæmis:

„Hvernig væri að nýta öll árin og reynsluna til að efla almenningssamgöngur og horfa til framtiðar í stað 1990? Bílar og mengun eru vandamál og ógna framtíð okkar á jörðinni. Hvers vegna ætla menn að banna bíla (fyrir utan íbúa) í miðborg Parísar? Hvert eru borgaryfirvöld í Helsinki að fara með bíllausri borg? Stöðumælasektir og röfl um fjölskylduna er done dæmi...“

Kjartan segir síðar að tillagan vísi aðallega til til viðburða í ákveðnum hverfum, en ekki á Lagardalsvelli. „Tekið fram að tillagan er ekki flutt vegna Laugardalsvallar enda eru næg bílastæði þar eins og flestir vita. Tillagan er flutt vegna vandkvæða, sem komið hafa upp þegar hverfisíþróttafélög, t.d. KR, halda fjölsótta kappleiki í íbúahverfum. Að sjálfsögðu er ekki verið að mæla því bót að bílum sé lagt á gangstéttir eða í stæði fatlaðra. Hins vegar mætti skilgreina betur hvar heimilt er að leggja við slíkar aðstæður og sýna á korti hvar stærri bílastæði er að finna, t.d. við opinberar stofnanir. Þetta er nú þegar gert í tengslum við ýmsar hátíðir í borginni og hefur gefist vel.“

Eva H. Baldursdóttir segir um málið: „Það eru ekki sjálfsögð mannréttindi að mínu viti að fá að vera á bíl, geta lagt honum nánast fyrir framan alla staði sem maður ætlar á, hvenær sem er og af hvaða tilefni. Ég var sjálf bílamanneskja um langt skeið og sá svo ljósið m.a. út frá sjónarmiðum um samkennd og umhverfisvitund og reyni að nota almenningssamgöngur í meira mæli en áður, en glími oft við bílafólið í mér. Ég held að það sé ekki rétt að forgangsraða mannafla og tíma borgarstarfsmanna í þessi verkefni, þó svo að ég sjái svo sem punktinn hans Kjartans.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×