Innlent

Telur að framhaldsskólum í landinu muni fækka

Ákveðið hefur verið að leggja niður elstu öldungadeild landsins, Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð, frá og með næstu áramótum. Ástæðan er meðal annars fjárskortur þar sem leggja á niður fjárveitingar til þeirra sem stunda nám til stúdentsprófs og eru 25 ára og eldri.

Málið var rætt á Alþingi í dag og Heimir Már Pétursson ræddi við Oddnýju Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Oddný, ákvörðunin um að leggja Öldungadeildina niður, tengist hún beint þessari ákvörðun sem þið voruð að ræða í dag?

„Já, hún gerir það vegna þess að breytingin gengur út á það að fækka nemendum sem eru 25 ára og eldri í bóknámi og Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð hefur einmitt sinnt því hlutverki.“

Hvað með þessi orð menntamálaráðherra þar sem hann talar um að hann muni sjá til þess að þessir nemendur njóti annarra úrræða?

„Ja, við þurfum að spyrja hann hvar hann ætlar að taka peningana fyrir þau úrræði og við verðum líka að fá hann til þess að færa fagleg og fjárhagsleg rök fyrir því að setja þá peninga ekki í opinbera skólakerfið heldur frekar í einkakerfið.“

Þannig að það sé í raun verið að einkavæða þessa þjónustu?

„Ja, ég veit það ekki, við þurfum að fá þessi rök fram. Af hverju setur hann þá ekki þá fjármuni í opinbera kerfið og sinnir þessum nemendum þar eins og hefur verið og stuðla þá bæði að góðri menntastefnu og byggðastefnu.“

Rétt að lokum, þú talar um að þetta myndi fækka starfsmönnum skólanna, heldurðu að þetta muni leiða til þess og jafnvel að skólum muni fækka?

„Já, ég sé það fyrir því að þegar nemendum fækkar núna eins og á að gera strax á árinu 2015 um 17-18% þá er alveg augljóst að starfsmönnum mun fækka líka. Skólarnir eiga þá erfitt með að reka sig almennilega og halda uppi fjölbreyttu námsframboði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×