Erlent

Vél Air France í Madríd einangruð vegna gruns um ebólusmit

Atli Ísleifsson skrifar
Flugvél Air France. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Flugvél Air France. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Farþegi í vél Air France á leið frá París til Madrídar hefur verið settur í einangrun á sjúkrahúsi eftir að hann byrjaði að skjálfa og mældist með háan hita um borð í vélinni. Óttast er að um mögulegt ebólutilfelli sé að ræða. Vélin hefur verið komið fyrir á einangruðu svæði á flugvellinum í Madríd.

Talsmaður heilbrigðisráðuneytisins á Spáni staðfestir að um mögulegt ebólusmit sé að ræða og hafa viðeigandi verkferlar spænskra heilbrigðisyfirvalda verið settir í gang.

Í frétt Sky News segir að 163 farþegar hafi verið um borð vélinni, Air France 1300. Öðrum farþegum hefur verið leyft að yfirgefa vélina en verða nú sótthreinsaðir.

Maðurinn kom upphaflega frá Lagos í Nígeríu en millilenti í París á leið sinni til Madrídar. Hann hefur verið fluttur til Carlos III sjúkrahússins í Madríd.

Vélinni var ekið á afgirt svæði á flugvellinum þar sem farþegum var fyrst haldið um borð um stund á meðan sjúkrabíls var beðið.

Vélin tók á loft frá Charles de Gaulle flugvellinum í París klukkan 07.35 í morgun og lenti á Barajas í Madríd tæpum tveimur tímum síðar. 

Flug vélarinnar aftur til Parísar hefur verið fellt niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×