Innlent

Segir Sigmund hræddan við staðreyndir

Stefán Árni Pálsson skrifar
Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð.
Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð. visir
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, skutu föstum skotum hvor á annan á Alþingi í gær.

Helgi sagði að forsætisráðherra hefði skipt hrægammasjóðum sem áttu að standa undir leiðréttingu á skuldum heimilanna út fyrir heimilin sjálf, sem standa eigi undir kostnaðinum. Forsætisráðherra svarði því með að segja að Helgi færi algerlega með rangt mál.

Helgi hefur nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann svarar forsætisráðherranum ítarlega.

„Forsætisráðherra sagði á alþingi í gær að „allt, allt … hvert einasta atriði“ í fyrirspurn minni til hans væri rangt og þar færi ég „ekki með eitt atriði rétt“. Hann gat þó ekki bent á eitt einasta dæmi um rangt atriði í ræðu minni. Enda voru efnisatriðin rétt og staðreyndirnar það sem olli uppnámi Sigmundar.“

Fram kemur í tilkynningu Helga að þegar forsætisráðherra fari fram með slík stóryrði sé nauðsynlegt að greina hvað hann eigi við. Með fréttatilkynningu af þessari tegund séu listuð upp þau tíu efnisatriði sem fram komu í tveggja mínútna ræðu Helga.

Þar rekur Helgi bæði heimildir og útreikninga hverju og einu.

„Þannig getur líka hver fyrir sig metið hvort hér séu staðreyndir sem Sigmundur vill ekki að ég tali um,“ segir í tilkynningu Helga Hjörvars.

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.Vísir/Pjetur
Hér að neðan má lesa röksemdarfærslu Helga Hjörvars, lið fyrir lið;

1. Að Framsóknarflokkurinn hafi fyrir kosningar sagt að hrægammar ættu að greiða kostnað við skuldalækkun heimilanna. Sbr. t.d. Sigmund Davíð sjálfan í leiðtogaumræðum í sjónvarpi 2. apríl 2013, sjá m.a. hér: 

2. Að nú ættu heimilin að bera byrðarnar. Sjá rökstuðning um matarskatt og vaxtabætur hér að neðan.

3. Að fyrirhuguð skuldalækkun heimilanna nemur 5% af skuldum þeirra.

Það er raunar enn minna því skv. tölum Hagstofunnar námu skuldirnar 1.927 milljörðum í árslok 2013. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu nemur niðurfærslan 73 milljörðum auk annars kostnaðar og niðurfelling nemur því 3,8% af skuldum heimilanna. 

4. Að Framsóknarflokkurinn hafi kynnt tillögu um 5% hækkun matarskatts. Sbr. t.d. þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og stjórnarfrumvarp á þingskjali nr. 2. 

5. Að meðallækkun skulda í niðurfærslunni sé um ein milljón kr. á heimili. Alls sóttu u.þ.b. 69.000 heimili um leiðréttingu: 

Niðurfærslan nemur 73 milljörðum, auk vaxtakostnaðar næstu ára og sú tala deilt á 69 þúsund heimili gerir 1.057.971 kr. að meðaltali á heimili ef allir fá eitthvað.

6. Að lækkun skuldar um 1 milljón lækkar greiðslubyrði um 5.000 kr. á mánuði. Fyrsta greiðsla af 1 milljón kr. verðtryggðu láni til 40 ára hjá LSR er í dag 3.919 kr. Meðalgreiðsla af sama láni er 5.633 kr. Sjá reiknivél á heimasíðu LSR.

7. Að matarskattur hjá heimili með 100 þús. kr. matarreikning hækkar um 5.000 kr. Hver og einn getur sannreynt á vasareikni sínum að 100.000 kr. matarreikningur fyrir vsk. er með 7% vsk. 107 þúsund en verður með 12% vsk. 112 þúsund eða 5 þúsund krónum hærri.

8. Að vaxtabætur hafa lækkað um 13 milljarða frá 2011 þegar þær voru mestar. Árið 2011 voru greiddir út 19 milljarðar í vaxtabætur og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu sem gera 21,3 milljarða á núvirði. Skv. fjárlagafrumvarpinu 2015 er gert ráð fyrir að vaxtabætur nemi 7,7 milljörðum kr. eða 13,6 milljörðum minna en 2011.

9. Að þessir 13 milljarðar séu þrír fjórðu hlutar þeirrar fjárhæðar sem verja eigi í niðurfærsluna á næsta ári. Fjórðungur 73 milljarða niðurfærslunnar sem kemur til framkvæmda 2015 nemur 18,25 milljörðum. 13,6 milljarðar eru 74,52% af þeirri fjárhæð eða þrír fjórðu.

10. Að eiginfjárstaða heimilanna styrktist um 638 milljarða frá 2010-2013. Sjá frétt Morgunblaðsins: Auðvitað er það viðkvæmt fyrir forsætisráðherra að bent sé á að niðurfærslan sé ekki nema 3,8% af skuldum heimilanna. Líka að hærra matarverð og lægri vaxtabætur rýri á móti kjör fólks. Þá ekki síst að þeir 18 milljarðar sem verja á úr ríkissjóði á næsta ári til niðurfærslunnar vegi lítið þegar eiginfjárstaða heimilanna styrktist um 638 milljarða frá 2010 til 2013. En þó Sigmundur hræðist umræðu um staðreyndir getur forsætisráðherra ekki leyft sér að hrópa ósannindi um staðreyndir sem bent er á. Enn síður þegar hann hefur ekki bent á eitt, hvað þá öll, atriðin því til stuðnings.

Hér að neðan er hægt að lesa og sjá ræðu Helga frá því á Alþingi í gær;

„Virðulegur forseti. Fyrir kosningar talaði Framsóknarflokkurinn mikið um hrægamma sem ættu að greiða kostnað við skuldalækkun heimilanna en núna eftir kosningar hefur hann skipt heimilunum í landinu inn fyrir þá hrægamma og ætlar heimilunum sjálfum að greiða skuldalækkunina. Þannig er skuldalækkun heimilanna sem fyrirhuguð er 5% af skuldum heimilanna og núna á sama tíma kemur flokkurinn fram með 5% hækkun á matarskattinum. Meðalskuldalækkun er um 1 millj. kr. á heimili. Það lækkar greiðslubyrðina um 5 þús. kr. á mánuði. Heimili með 100 þús. kr. matarreikning fær 5 þús. kr. hækkun á matarskatti.

Við þetta bætist að búið er að draga úr vaxtabótum um 13 milljarða frá því sem var árið 2011, eða 3/4 hluta þeirrar fjárhæðar sem á að verja til skuldalækkunar heimilanna og þannig enn frekar senda heimilunum sjálfum reikninginn fyrir þessari aðgerð. Nú hlýtur maður að spyrja: Var það alltaf ætlun Framsóknarflokksins að lækka skuldir heimilanna bara um 5% og hækka matarskattinn á móti um 5%? Er það allur batinn á hag heimilanna sem Framsóknarflokkurinn gaf fyrirheit um í kosningunum, eða minntist Framsóknarflokkurinn ekkert á að það ætti að fara þessa leið fyrir kosningar en fer hana bara eftir kosningar?

Hagur heimilanna styrktist frá 2010–2013, eiginfjárstaðan um 638 milljarða kr. Á næsta ári ætlar hæstv. forsætisráðherra að verja 20 milljörðum í skuldaleiðréttingar en er búinn að draga úr vaxtabótum frá því sem þær voru mestar um 13 milljarða og hækka matarskattinn um 5%. Ætlar hæstv. forsætisráðherra að halda því fram að heimilin séu betur sett eftir en áður, að hér sé um einhverjar aðgerðir að ræða sem skipti sköpum um eiginfjárstöðu heimilanna eða hjálpi heimilunum að ráða við sín mánaðarlegu útgjöld?.“Hér að neðan má síðan sjá hvernig Sigurmundur Davíð svaraði Helga á þingi í gær.
Tengdar fréttir

Hrægammasjóðum skipt út fyrir heimilin

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að heimilin sjálf muni standa undir kostnaðinum við leiðréttingu húsnæðisskulda með hækkun virðisaukaskatts á matvæli. Ósvífinn málflutningur að mati forsætisráðherra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.