Innlent

Gömul sveitakirkja fær andlitslyftingu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Eitt helsta djásn Barðstrendinga, 120 ára gömul sveitakirkja á bænum Haga, gengst nú undir viðamiklar endurbætur. Meðal annars þarf að endurnýja grjóthleðslu sem myndar grunn kirkjunnar.

Oftar en ekki er kirkjan svipmesta bygging hverrar sveitar og gjarnan sú elsta. Mönnum er því ekki sama um hvað verður um þessi mannvirki.

Kirkjan á Haga á Barðaströnd er friðuð enda að stofni til frá árinu 1892. Bárujárnið utan á er hins vegar illa farið en timburklæðningin undir í ágætis standi eftir allan þennan tíma, hluti tréverks telst þó ónýtur, eins og gluggafög.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, landslagsarkitekt og grjóthleðslumeistari, segir Haga höfuðból héraðsins og kirkjan og staðurinn eigi sér stórmerka sögu. Nú standi til að laga þessa 120 ára gömlu kirkju.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, landslagsarkitekt og grjóthleðslumeistari.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Minjastofnun og Húsafriðunarnefnd hafa veitt styrk til verksins. Trésmiðjan TV-verk á Tálknafirði annast endurnýjun á timburverkinu en Guðmundur Hrafn mun sjá um að lagfæra grjóthleðslu sem kirkjan hvílir á. 

Hann segir mikla hleðslumenningu á Barðaströnd, eins og kirkjugarðsveggurinn er dæmi um, en búið var að múra yfir hleðsluna sem er undir kirkjunni. Til að laga hana þarf líklega að tjakka kirkjuna upp. 

„Þannig að þetta verður vandasamt verkefni og verður að gera þetta vel, með virðingu fyrir gömlu handbragði. Það verði prýði af þessu. Þetta er ekki bara burðarvirki heldur á þetta að prýða kirkjuna og verða hluti af ásýnd hennar,“ sagði Guðmundur Hrafn í viðtali í fréttum Stöðvar 2.

Kirkjan að Haga að innan.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×