Fótbolti

Dómaraspreyið hættulegt heilsunni

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mun spreyið hverfa úr boltanum?
Mun spreyið hverfa úr boltanum? vísir/getty
Þýskir rannsakendur hafa komist að því að það séu efni hættuleg heilsunni í dómaraspreyinu sem notað var á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Brasilíu í sumar.

Þýsk rannsóknarstofa greindi frá því í gær að í spreyinu er að finna efni sem grunur er um að séu hættuleg heilsunni en byrja á að nota spreyið í þýsku úrvalsdeildinni um miðjan október.

„Í núverandi mynd er ekki leyfilegt að nota þessa vöru í Þýskalandi og Evrópusambandinu,“ sagði Ralf Diekmann talsmaður rannsakenda.

Þýska knattspyrnusambandið er með málið í skoðun en telur að engar tafir verði á því að spreyið verði tekið í notkun en það vissi ekki af þessari rannsókn.

„Burt séð frá þessu þá höfum við átt í viðræðum við aðra framleiðendur um að nota önnur sprey en þessa dýru vöru frá Argentínu,“ sagði Lutz Michael Fröhlich yfirmaður dómaramála hjá þýska sambandinu.

„Við erum vissir um að finna aðra lausn sem verður ekki gölluð.“

Efnið sem fannst í spreyinu er Paraben sem meðal annars er notað í snyrtivörum en spreyið hefur verið notað víða eftir HM, þar á meðal í ensku úrvalsdeildinni og Pepsí deildinni hér á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×