Innlent

Gasský leggur til austurs

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mengunin sást vel frá Eskifirði í gærkvöld.
Mengunin sást vel frá Eskifirði í gærkvöld. mynd/kristinn þór jónasson
Gasský leggur frá gosstöðvunum við Bárðarbungu til austurs en mjög hár styrkur brennisteinsdíoxíðs mældist á Reyðarfirði um klukkan tíu í gærkvöld. Hæstu gildin voru tæplega fjögur þúsund míkrógrömm á rúmmetra sem eru hæstu gildi sem mælst hafa hér á landi. Þá mældist hár toppur á Egilsstöðum upp á 685 míkrógrömm á rúmmetra. Viðvörun var send út með SMS skilaboðum í alla GSM síma í Fjarðarbyggð. Þetta er meðal þess sem kom frá á fundi vísindaráðs almannavarna sem fram fór í dag.

Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun sagði í samtali við fréttastofu í dag að fylgjast verði vel með þeim eiturgufum sem frá gosinu koma. Tugir þúsunda tonna af eitruðu gasi streymi á degi hverjum úr eldstöðvunum í Holuhrauni.

Spár gefa til kynna að hár styrkur brennisteinsgass og annarra gosefna gæti orðið á norðanverðum Austfjörðum, Fljótsdal, Héraði, Jökuldal og á Langanesi. Spáin gefur til kynna að styrkur gæti aukist á norðausturlandi er líða fer á daginn. Svæði með háum styrk gæti orðið stærra en taka þarf tillit til landfræðilegra aðstæðna á hverjum stað við mat loftgæða.

Fólk er hvatt til að halda sig innandyra finni það fyrir óþægindum. Þá er það beðið um að loka gluggum, auka kyndingu og slökkva á loftræstingu. Umhverfisstofnun hvetur fólk jafnframt til að fylgjast með mælingum á loftæðum á vefsíðunni, Ust.is.mynd/kristinn þór jónasson

Tengdar fréttir

Aldrei mælst meiri loftmengun

Styrkur brennisteinsdíoxíðs hefur verið gríðarlega mikill við Reyðarfjörð í kvöld og er kominn yfir 4000 míkrógrömm á rúmmetra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.