Innlent

Búast við sambærilegum gildum á Austfjörðum næstu daga

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/auðunn
Mengun á Austfjörðum er örlítið lægri en hún var í dag en fólk er þó enn hvatt til að halda sig innandyra. Búist er við sambærilegum gildum næstu daga.

„Miðað við sama gang í gosinu getum við búist við sambærilegum gildum, um 2000µg/m3, en það eru þrír þættir sem ráða því. Í fyrsta lagi er það hversu mikið brennisteinsdíoxíð losnar og svo er það vindstefna og vindstyrkur og hversu hátt gosmökkurinn  fer. Í gær sló gosmökkinn niður á Reyðarfjörð og sveitirnar þar í kring,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.

Hann segir mikilvægt að fólk kunni sín mörk og sé meðvitað um mengun í lofti. Nauðsynlegt sé að  koma sér úr aðstæðum finni það fyrir einkennum. Mengunin sé þó ekki lífshættuleg.

„Það er engin stórhætta, en fólk með astma eða annað ætti kannski ekki að fara í maraþon eða erfiða útivinnu á meðan staðan er svona,“ segir Þorsteinn.

Börnum var ráðlagt að halda sig innandyra á Austfjörðum í gær og sömuleiðis þeir sem ekki ganga fullkomlega heilir til skógar. Þá var fólki ráðlagt frá því að stunda líkamsrækt utandyra. Magn SO2 í lofti mældist 2600 µg/m3 á Reyðarfirði í gær en í morgun var magnið um 250 µg/m3.

Þorsteinn hvetur fólk til að fylgjast með heimasíðu umhverfisstofnunar, ust.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×